Grindvíkingar þokast ofar
Það hefur mikið verið um að vera á knattspyrnuvöllunum þessa helgina en gengi Suðurnesjaliðanna er svolítið í ökkla eða eyra. Grindvíkingar unnu góðan sigur á Gróttu í Lengjudeild karla í dag en á sama tíma tapaði Þróttur enn og aftur. Njarðvíkingar halda sig við sama heygarðshornið og unnu sigur á ÍR í 2. deild karla í gær en Reynismenn töpuðu stórt fyrir KFA. Að lokum gerðu Víðismenn 2:2 jafntefli við Kára í 3. deild karla í dag.
Grindavík - Grótta 3:1
Grindavík vann góðan sigur á liði Gróttu sem situr í þriðja sæti Lengjudeildar karla í dag en Grindavíkingar komust yfir í lok fyrri hálfleiks með marki Tómasar Leós Ásgeirssonar (45'). Gróttumenn gerðu sjálfsmark í upphafi seinni hálfleiks (47') en minnkuðu muninn í 2:1 þegar langt var liðið á leikinn (82').
Grindavík innsiglaði sigurinn tveimur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma (88') með marki Kenan Turudija og sitja nú í fimmta sæti deildarinnar.
Kórdrengir - Þróttur 1:0
Það gengur fátt upp hjá Þrótturum á þessari leiktíð en þeir léku gegn Kórdrengjum í Safamýri í dag þar sem Kórdrengir skoruðu eina mark leiksins í seinni hálfleik (65').
Þróttarar eru sem fyrr á botni Lengjudeildarinnar og hafa ekki enn unnið leik.
Njarðvík - ÍR 2:0
Njarðvíkingar halda áfram sigurgöngu sinni í 2. deild karla en þeir unnu ÍR-inga í gær.
Framan af voru gestirnir betra liðið en þrátt fyrir það voru það Njarðvíkingar sem fóru með sigur af hólmi. Eftir markalausan fyrri hálfleik þar sem ÍR hafði verið mun sóknardjarfara voru það heimamenn sem komust yfir á 50. mínútu. Markið fær Sigurjón Már Markússon skrifað á sig en hann sótti fast að marki gestanna eftir aukaspyrnu og boltinn hrökk af varnarmanni og inn.
Eftir að hafa brotið ísinn hresstust Njarðvíkingar talsvert við og hefðu jafnvel getað bætt við fleiri mörkum.
Seinna markið kom svo skömmu fyrir leikslok þegar Úlfur Ágúst Björnsson fékkk boltann einn og óvvaldaður inni í teig ÍR, eftirleikurinn var auðveldur og Úlfur afgreiddi boltann yfirvegað framhjá markverði ÍR.
Njarðvík er efst í 2. deild karla og hefur nú skapað sér þægilegt sex stiga forskot á næstu lið þegar deildin er hálfnuð.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Njarðvíkurvelli í gær og má sjá fleiri myndir úr leiknum í myndasafni neðst á síðunni.
KFA - Reynir 4:0
Reynismenn sitja sem fastast á botni 2. deilar en þeir töpuðu stórt fyrir KFA í Fjarðabyggðahöllinni í dag. Austfirðingar skoruðu fjögum mörk í leiknum, öll í fyrri hálfleik.
Víðir - Kári 2:2
Víðismenn misstu KFG tveimur stigum fram úr sér eftir að hafa gert jafntefli við Kára í dag.
Víðir komst í tveggja marka forystu snemma í leiknum með mörkum frá Jóhanni Þór Arnarssyni (7' og 9', víti). Kári minnkaði muninn á 36. mínútu og í seinni hálfleik kom jöfnunarmarkið (74').
Þegar deildin er hálfnuð eru Víðismenn í öðru sæti, jafnir Sindra að stigum, en KFG er á toppnum.