Grindvíkingar þakka stuðningsmönnum sínum
Leikmenn knattspyrnuliðs Grindavíkur hafa sent stuðningsmönnum sínum afsökunarbeiðni fyrir að hafa ekki þakkað þeim stuðninginn eftir síðasta heimaleik þar sem Grindvíkingar voru teknir í kennslustund af FH og töpuðu 1-5. Stærsti hluti stuðningsmanna lét ekki bugast þótt sífellt syrti í álinn og hvöttu sína menn linnulaust til leiksloka.
Í orðsendingu á heimasíðu félagsins segir að leikmenn hafi ákveðið að fagna stuðningsmönnum sínum eftir hvern leik héðan í frá þar sem stuðningi sem þessum sé ekki hægt að taka sem sjálfsögðum hlut.