Grindvíkingar tapa stórt
Grindvíkingar máttu sín lítils gegn sterku liði Stúdína í Iceland Express-deild kvenna í kvöld, en ÍS sigraði á heimavelli sínum, 100-55.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í byrjun en þau mættust einnig í bikarúrslitunum fyrir rúmri viku þar sem ÍS sigraði örugglega.
Í öðrum leikhluta náðu Stúdínur undirtökunum og héldu þeim allt til loka. Staðan í hálfleik var 49-22 en heimastúlkur voru alráðar undir teignum þar sem Grindvíkingar voru án miðherja síns Jericu Watson, sem hélt af landi brott eftir bikarúrslitin. Stúdínur beittu svæðisvörn sem Grindvíkingar voru alls ekki að ná að leysa og langskotin þeirra voru ekki að ganga sem skyldi.
Hildur Sigurðardóttir var stigahæst Grindvíkinga í leiknum með 20 stig, en Maria Conlon fór fyrir jöfnu liði Stúdína með 19 stig.
„Þetta var bara skelfilegt hjá okkur," sagði Unndór Sigurðsson þjálfari Grindvíkinga í samtali við Víkurfréttir í leikslok. "Allt sem við gerðum virtist vera á hálfum hraða og það virtist vanta allt sjálfstraust hjá stelpunum."