Grindvíkingar taka á móti botnliðinu
Hafa ekki uppá neitt að spila nema stoltið
Heil umferð er í 1. deild karla í dag en nú fer að styttast í annan endann á deildinni og eru aðeins fimm umferðir eftir með umferð dagsins.
Grindvíkingar svo gott sem sögðu sig úr baráttunni um sæti í Pepsí deildinni með því að tapa fyrir toppliði Þróttar í síðustu umferð og hafa því í raun ekki um mikið að keppa að þegar botnlið BÍ/Bolungarvíkur mætir í heimsókn.
Grindavík getur hvorki fallið né farið upp um deild svo búast má við að þeir Tommy Nielsen og Óli Stefán Flóventsson bryddi upp á því að leyfa yngri leikmönnum liðsins að spreyta sig í næstu leikjum og taka sín fyrstu spor í meistaraflokki.
Leikið verður á óhefðbundnum tíma í dag og mun leikur Grindavíkur og BÍ/Bolungarvíkur hefjast kl. 14:30