Grindvíkingar stóðu í Haukum
Haukar unnu Grindavík í gær í Subway-deild kvenna í körfuknattleik með 74 stigum gegn 62. Grindvíkingar stóðu í Haukakonum í fyrsta leikhluta en Haukar náðu að byggja upp gott forskot í öðrum leikhluta og leiddu með tólf stigum í hálfleik. Grindvíkingar minnkuðu muninn í átta stig fyrir síðasta leikhlutann og í upphafi þess fjórða setti Hulda Björk Ólafsdóttir niður þrist og þá skildu aðeins fimm stig liðin að. Haukar svöruðu að bragði með þrist og nær komust Grindvíkingar ekki.
Grindavík hóf deildarkeppnina með góðum sigri á Fjölni en hefur ekki náð að fylgja honum eftir og tapað þremur síðustu leikjum. Leikur liðsins virðist vera að slípast til og þokast í rétta átt og Grindavíkurliðið ætti að geta strítt hvaða liði sem er í vetur.
Haukar - Grindavík 74:62
(21:18, 23:14, 13:17, 17:13)
Grindavík: Hekla Eik Nökkvadóttir 15, Danielle Victoria Rodriguez 15/11 fráköst, Elma Dautovic 11/5 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir 10/4 fráköst/6 stoðsendingar, Amanda Akalu Iluabeshan Okodugha 7/11 fráköst, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 4, Arna Sif Elíasdóttir 0, Hjörtfrídur Óðinsdóttir 0, Edda Geirdal 0, Aþena Þórdís Ásgeirsdóttir 0, Sigurbjörg Eiríksdóttir 0, Elsa Katrín Eiríksdóttir 0.