Grindvíkingar sterkari á lokasprettinum í Keflavík
Grindvíkingar lögðu granna sína í Keflavík í æsispennandi leik Domino's deildinni í körfubolta í TM höllinni í Keflavík í gærkvöldi. Lokatölur urðu 96-102 eftir að heimamenn höfðu leitt með einu stigi í hálfleik 44-43.
Leikurinn var mjög jafn allan tímann, Keflvíkingar unnu fyrsta leikhlutann með einu stigi en næstu tveir voru hnífjafnir. Í síðasta leikhluta mættu Grindvíkingar hins vegar með það sem upp á vantaði til að knýja fram sigur og kláruðu leikinn með sex stiga sigri.
Þeir Þorleifur og Ólafur Ólafssynir voru atkvæðamestir hjá Grindvíkingum, Ólafur með 25 stig og Þorleifur með 18 stig og 100% nýtingu í tveggja stiga skotum. Þorsteinn Finnbogason skoraði 15 og þeir Dagur Kár Jónsson og Lewis með 13 stig hvor.
Hjá Keflvíkingum skoraði Amin Stevens nærri helming stiga liðsins eða 41 og nýtingin hans var mjög góð sem og framlag í vörn. Guðmundur Jónsson kom næstur með 15 stig og Reggie Dupree var með 12 stig.
Jón Björn Ólafsson hjá karfan.is ræddi við Þorstein Finnabogason eftir leikinn.
Ítarleg og skemmtileg umfjöllun um leikinn er á karfan.is