Grindvíkingar sleppa við fall eftir spennandi leik
Grindvíkingar unnu glæsilegan sigur á grönnum sínum í Keflavík í Landsbankadeildinni í gær, 2-1. Með því björguðu þeir sér frá falli enn einu sinni og geta enn sagst vera eina liðið sem aldrei hefur fallið úr efstu deild.
Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og var augljóst að bæði lið voru staðráðin í að sækja þrjú stig. Grindvíkingar máttu ekki missa stig, þá væru þeir fallnir, og Keflvíkingar þurftu einnig sigur til að eiga möguleika á þriðja sætinu.
Keflvíkingar voru mun beittari fram á við í upphafi og átti Hörður Sveinsson fyrsta færi leiksins á 2. mínútu þegar Boban Savic varði skalla hans.
Þrátt fyrir að jafnræði væri með liðunum náðu Grindvíkingar ekki að koma sér í færi fyrr en á 17. mínútu þegar Mounir Ahandour átti gott skot á mark sem Ómar Jóhannsson varð vel. Mounir hafði fengið afbragðs stungusendingu inn fyrir vörnina sem gaf honum þetta færi.
Þá fór að draga til tíðinda en Paul McShane fékk fyrirgjöf frá Óla Stefáni Flóventssyni á 21. mínútu og var ekki í vandræðum með að renna boltanum inn í autt fjærhornið, óverjandi fyrir Ómar. Gulklæddir í stúkunni fögnuðu gríðarlega eins og við var að búast en gleðin reyndist skammvinn.
Strax á eftir átti Guðmundur Steinarsson gott skot úr aukaspyrnu af löngu færi sem fór rétt framhjá og Hólmar Örn Rúnarsson átti annað sem fór sömuleiðis framhjá.
Keflvíkingar lögðust á heimamenn af miklum þunga og á 24. mínútu jafnaði Guðmundur leikinn með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Herði. Grindvíkingar voru aftur komnir í fallsæti og máttu nú fara að taka á því í sókninni.
Keflvíkingar viðhéldu pressunni og voru Grindvíkingar heppnir að lenda ekki undir þegar boltinn hrökk af Sinisa Kekic og næstum í mark, en félagi hans varði á línu og hreinsaði í horn. Kekic átti annars afar góðan leik í vörninni ásamt Mathias Jack.
Enn skall hurð nærri hælum við mark Grindvíkinga á 42. mínútu þegar Hörður skallaði í stöng eftir sendingu frá Hólmari, en hlutirnir breytast fljótt í fótbolta.
Á 43. mínútu tekur Óskar Hauksson á sprett og prjónar framhjá hverjum varnarmanni Keflvíkinga á fætur öðrum og sendir inn á Óla Stefán sem rennir boltanum framhjá Ómari, staðan 2-1 og Grindvíkingar enn í úrvalsdeild.
Stutt var liðið á seinni hálfleik þegar Guðmundur Steinarsson kom knettinum í net Grindvíkinga, en hann var dæmdur rangstæður og var Grindvíkingum mjög létt.
Grindvíkingar lágu aftarlega á vellinum og spiluðu mjög varfærnislega enda hugðust þeir halda fengnum hlut.
Bæði lið voru þó að fá ágætis færi þar sem Hörður komst inn í sendingu Jack til Savic en náði ekki að nýta sér hana og á hinum endanum var Óli Stefán klaufi að nýta sér ekki misskilning milli Ómars og varnarmanna á 56. mínútu.
Spennan magnaðist eftir því sem leið á leikinn og átti Óli Stefán frábæra bakfallsspyrnu á 67. mínútu sem fór rétt yfir. Þar hefði hann nær getað gert útum leikinn.
Fjórum mínútum síðar varði Savic meistaralega þegar hann sló fyrirgjöf/skot Hólmars í slá og yfir.
Á síðustu mínútunum sóttu Keflvíkingar án afláts og skiptu inn á óþreyttum fótum til að hressa upp á sóknina hjá sér. Þar á meðal kom inn hinn 15 ára Einar Orri Einarsson, en hann skipti við Gest Gylfason, sem er litlum 20 árum eldri en Einar. Er án efa leitun að öðrum eins aldursmun á milli leikmanna. Fékk Gestur mikla og góða hyllingu þegar hann fór af velli þar sem stuðningsmenn beggja liða klöppuðu honum lof í lófa, enda lék hann með Grindavík í þrjú ár áður en hann snéri aftur á heimahagana fyrir sumarið.
Dómarinn flautaði leikinn af eftir nokkrar spennandi mínútur í viðbótartíma og var fögnuðurinn gífurlegur. Grindvíkingar þustu út á völlinn til að fagna hetjunum sínum og var engu líkara en þeir væru að fagna Íslandsmeistaratitli, slík voru lætin.
VF-myndir/Hilmar Bragi