Grindvíkingar skipta aftur um erlendan leikmann
Þótti ekki standa undir væntingum
Grindvíkingar hafa ákveðið að rifta samningi við Bianca Lutley sem kom til liðsins í byrjun árs í Domino's deild kvenna í körfubolta. Lutley var ætlað að vera leiðtogi hjá Grindvíkingum á meðan Pálína Gunnlaugsdóttir var fjarri vegna meiðsla. Pálína er nú komin aftur og þótti Lutley ekki ná að skila því hlutverki eins og til var ætlast.
„Hún hefur engan veginn staðið undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Grindvíkinga í samtali við Víkurfréttir. Nú þegar er búið að semja við nýjan leikmann og telur Jón að jafnvel hafi hann hugsanlega unnið í hinu margumrædda happadrætti erlendra leikmanna. „Ég held að ég hafi keypt mér vinningsmiða núna,“ sagði Jón kíminn. Hann segir að miðað við það orðspor sem fór af Lutley þá hafi hún aldrei staðið undir því hjá Grindvíkingum.
Lutley skoraði 20,2 stig í leik fyrir Grindavík og tók 8,4 fráköst. Bakvörðurinn fjölhæfi frá LSU háskólanum var arftaki Lauren Oosdyke en sú var látin fara rétt fyrir áramót frá þeim gulklæddu.