Grindvíkingar sigruðu Keflavík í hörkuleik
Grindavík sigraði Keflavík, 97:92, í toppslag Intersport-deildarinnar í körfuknattleik í kvöld en leikurinn fór fram á sunnubrautinni. Staðan í hálfleik var jöfn, 41:41. Heimamenn voru með yfirhöndina nær allan leikinn þar til í lokin að Páll Axel Vilbergsson fór að raða niður þriggjastiga körfum og tryggði gestunum sigur. Páll skoraði 23 stig í leiknum en Darrell Lewis var stigahæstur á vellinum með 37 stig. Í liði heimamanna lék Jón N. Hafsteinsson hvað best en hann skoraði 16 stig og tók 9 fráköst ásamt því að spila fanta góða vörn. Falur Harðarson átti einnig góðan leik og skoraði 18 stig. Þá sigruðu Njarðvíkingar í leiknum gegn Snæfell, 93:78, þar sem nýji erlendi leikmaðurinn í liði heimamanna, GJ Hunter, átti skínandi leik og setti niður 34 stig. Staðan í hálfleik var 45:40 heimamönnum í vil. Ragnar Ragnarsson lék einnig vel og skoraði 22 stig.Að loknum sex umferðum eru KR-ingar og Grindavík á toppnum með 10 stig og Keflavík, Njarðvík og Haukar koma svo næst með 8 stig.