Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar sigruðu fyrstu lotu
Þriðjudagur 10. apríl 2012 kl. 20:47

Grindvíkingar sigruðu fyrstu lotu



Grindvíkingar unnu sigur í fyrsta leik sínum gegn Stjörnunni í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla í körfubolta nú fyrir skömmu. Loktölur urðu 83-74 í fremur spennandi og skemmtilegum leik. Grindvíkingar voru ávallt með yfirhöndina í leiknum en þó tókst þeim ekki að stinga Stjörnumenn af og gera út um leikinn fyrr en undir lokin.

Hátt í 600 manns voru mættir til þess að fylgjast með rimmu Grindvíkinga og Stjörnumanna en þarna fara tvö af þeim liðum sem þykja hvað líklegust til þess að hampa Íslandsmeistaratitlinum þetta árið.

Í hálfleik var staðan 38-35 fyrir heimamenn en þeir gulklæddu voru að spila fantagóða vörn á körflum. Níu stolnir boltar í fyrri hálfleik hjá Grindvíkingum segja kannski sína sögu en þó náðu þeir ekki að hrista Stjörnumenn af bakinu á sér. J´Nathan Bullock var með 13 stig í fyrri hálfleik en annars dreifðist stigaskor bróðurlega á milli mannna. Mest náðu Grindvíkingar 9 stiga forystu en Stjarnan gaf ekkert eftir.

Grindvíkingar voru enn skrefinu framar en stemningin var að magnast upp hjá Stjörnunni í upphafi síðari hálfleiks. Þorleifur Ólafsson sýndi lipra takta hjá Grindvíkingum en hann er óðum að finna sitt gamla form. Þegar 3. leikhluta lauk voru Grindvíkingar komnir í nokkuð góð mál og höfðu forystu 62-56. Þeir vitust vera að landa sigrinum þegar hér var komið við sögu. Lærisveinar Teits Örlygssonar reyndu hvað þeir gátu en eins og flestir körfuboltaáhugamenn vita þá hafa Grindvíkingar úr mörgum sterkum leikmönnum að velja og breiddin er fáheyrð. Það reyndist Stjörnumönnum banabitinn í leiknum að Grindvíkingar náðu að keyra á mörgum mönnum og vörnin var góð að vanda hjá deildarmeisturunum.

Á lokasprettinum reyndust heimamenn því sterkari og Stjörnumenn höfðu einfaldlega ekki nóg púður til þess að fylgja Grindvíkingum yfir endalínuna.

Stigin:

Grindavík: J'Nathan Bullock 24/10 fráköst, Þorleifur Ólafsson 16/7 fráköst, Giordan Watson 10/4 fráköst/7 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 9, Ryan Pettinella 7/6 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/8 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 5/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 3/5 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 2, Þorsteinn Finnbogason 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0.

Stjarnan: Keith Cothran 22/6 fráköst, Renato Lindmets 14/4 fráköst/6 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 11, Justin Shouse 11/4 fráköst/8 stoðsendingar, Fannar Freyr Helgason 9/5 fráköst, Marvin Valdimarsson 5, Dagur Kár Jónsson 2, Guðjón Lárusson 0, Sigurjón Örn Lárusson 0, Aron Kárason 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0.


Áhorfendur skemmtu sér og létu í sér heyra á köflum




Þorleifur Ólafsson er óðum að finna sitt gamla form en það eru góðar fréttir fyrir gula



Bullock var öflugur að vanda

Myndir EJS

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024