Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar sem karlmenn meðal drengja
Mánudagur 19. mars 2012 kl. 21:54

Grindvíkingar sem karlmenn meðal drengja



Njarðvíkingar áttu aldrei möguleika gegn sterkum Grindvíkingum í kvöld í Iceland Express-deildinni í körfubolta karla og höfðu nýkrýndir deildarmeistarar 22 stiga sigur í Ljónagryfjunni í kvöld. Grindvíkingar sýndu mátt sinn og megin og sigurinn var frekar áreynslulaus.

Giordan Watson byrjaði aftur inná eftir að hafa hvílt síðasta leik vegna meiðsla hjá Grindvíkingum og það eru góðar fréttir fyrir þá gulklæddu. Cameron Echols byrjaði leikinn með þremur stökkskotum í röð og kom Njarðvík í 6-0 áður en Jóhann Árni Ólafsson svaraði með tveimur þriggja stiga í röð á skömmum tíma. Jóhann Árni og Cameron Echols voru í aðalhlutverki á upphafsmínútunum og skoruðu báðir 8 fyrstu stig liða sinna. Grindvíkingar komust í fyrsta sinn yfir þegar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum. Grindvíkingar gátu leyft sér að byrja án Ólafs Ólafssonar og Páls Axels Vilbergssonar en þeir komu inná þegar fjórar mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta. Páll Axel lætur strax vita af sér og smellir niður einum þrist og breytir stöðunni í 10-14, Grindvíkingum í vil.

Njarðvíkingar breyttu yfir í svæðisvörn þegar rúmar tvær mínútur lifðu af fyrsta leikhluta. Ólafur Ólafson jók svo muninn í sjö stig þegar að innan við mínúta var eftir af leikhlutanum þegar hann setti niður þriggja stiga skot með viðkomu í spjaldinu, hann gleymdi þó að segja frá því eins og tíðkast. Njarðvíkingar löguðu stöðuna en það munaði fimm stigum á liðunum að loknum fyrsta leikhluta, 14-19 fyrir gestina.

Páll Axel opnaði annan leikhluta með þrist en Echols var enn við sama heygarðshornið á hinum enda vallarins. Travis Holmes minnti svo á sig með þriggja stiga körfu skömmu síðar. Páll Axel setti sinn þriðja þrist og svæðisvörn Njarðvíkinga ekki að virka sem skyldi. Hægt og bítandi juku Grindvíkingar muninn sem var kominn upp í níu stig þegar tæpar 6 mínútur voru til hálfleiks. Skotin voru ekki að detta hjá heimamönnum og sömuleiðis virtust þeir vera hálf skelkaðir í sóknaraðgerðum sínum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks voru deildarmeistararnir komnir með 13 stiga forskot og nokkrar flottar troðslur litu dagsins ljós. Svo virtist vera að um leið og leikmenn fengu boltann í sókninni hjá Njarðvíkingum þá var umsvifalaust leitað að næsta manni til að senda á, fáir virtust tilbúnir að ráðast á körfuna og því gekk lítið í sóknarleiknum hjá þeim. Grindvíkingar fengu þess vegna fjölda hraðaupphlaupa og munurinn fór upp í 16 stig þegar 1:30 voru til leikhlés. Í hálfleik var staðan  26-44, Grindvíkingum í vil.

Algeng sjón í kvöld - troðsla frá Bullock

Grindvíkingar voru að hitta tæplega 48% úr tveggja stiga skotum og 45% úr þriggja stiga á meðan Njarðvíkingar voru með 37% nýtingu í tveggja stiga skotum og 22% þriggjastigaskota þeirra rötuðu ofaní í fyrri hálfleik og þar lág munurinn fyrst og fremst. Cameron Echols var atkvæðamestur heimamanna með 10 stig í hálfleik og Travis Holmes var með 9. Hjá Grindvíkingum dreifðist stigaskorið vel og voru níu leikmenn komnir á blað í hálfleik. J´Nathan Bullock var þó fremstur í flokki Grindvíkinga með 9 stig.

Það verður að segjast eins og er að ekki var mikið af áhorfendum í stúkunni svona miðað við það hvað var undir hjá heimamönnum og stemningin í samræmi við spilamennsku þeirra grænklæddu.

Áfram hélt svæðisvörn Njarðvíkinga en hún var hripleik og í raun ótrúlegt af hverju þjálfarar Njarðvíkinga ákváðu að halda sig við hana í byrjun síðari hálfleiks. Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður þá var staðan 32-58 fyrir Grindavík og nákvæmlega ekkert sem var að ganga upp hjá Njarðvíkingum. Deildarmeistararnir þurftu lítið að hafa fyrir hlutunum og Bullock sallaði niður stökkskotum eins og ekkert væri sjálfsagðara. Hittnin hjá heimamönnum var ævintýralega léleg en að sama skapi verður að hrósa Grindvíkingum fyrir agaðan og skynsaman leik. Þegar að þriðja leikhluta lauk var munurinn 30 stig, 39-69 og bara spurning hvort Njarðvíkingar myndu ná að bjarga andlitinu í síðasta leikhlutanum.

Það var nánast formsatriði að klára leikinn en bæði lið virtust sætta sig við fenginn hlut. Munurinn var í kringum 25 stig en að lokum fór það svo að Grindvíkingar unnu 22 stiga sigur, 61-83. Algjört andleysi yfirtók Njarðvíkinga um leið og á þá fór að halla í leiknum og það virtist hvetja reynslumeiri Grindvíkinga til dáða. Auðvitað er hægt að fara yfir tölfræðina í þaula en þegar allt kemur til alls voru Grindvíkingar einfaldlega sem karlmenn á meðal drengja í dag og sigurinn aldrei í hættu.

Stigin:

Njarðvík: Cameron Echols 12/7 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 11, Páll Kristinsson 9/5 fráköst, Travis Holmes 9/7 fráköst, Elvar Már Friðriksson 8, Ólafur Helgi Jónsson 6, Sigurður Dagur Sturluson 2, Oddur Birnir Pétursson 2/8 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 2, Styrmir Gauti Fjeldsted 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0.

Grindavík: J'Nathan Bullock 25/8 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 16/7 fráköst, Ólafur Ólafsson 8/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 8/6 fráköst, Giordan Watson 6/4 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6/8 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4/6 fráköst, Þorleifur Ólafsson 4/5 stoðsendingar, Ryan Pettinella 4, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Þorsteinn Finnbogason 0, Ármann Vilbergsson 0.






Ólafur Ólafsson stökk upp í stúku á eftir boltanum



Myndir/texti: Eyþór Sæmundsson