Grindvíkingar sáu aldrei til sólar í Vesturbænum
Grindvíkingar sáu aldrei til sólar í fimmta úrslitaleiknum í Domino’s deildinni í körfubolta. Þeir léku sennilega sinn lélegasta leik á árianu og töpuðu stórt fyrir KR-ingum í Vesturbænum í kvöld. Lokatölur 95-56 eftir að staðan í hálfleik var 49-18.
Leiknum var í raun lokið í hálfleik. Grindvíkingum var fyrirmunað að skora og að ná ekki nema 18 stigum í fyrri hálfleik er með ólíkindum. Sem dæmi um hvað Grindvíkingum gekk illa að finna leiðina ofan í körfuna þá skoraði Lewis Clinch Jr., einn besti útlendingurinn í deildinni í vetur, ekki körfu fyrr en í lokaleikhlutanum og aðeins 6 stig í heildina.
Stig Grindavíkur: Dagur Kár Jónsson 15, Þorleifur Ólafsson 8/8 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 8/10 fráköst/4 varin skot, Þorsteinn Finnbogason 7, Ingvi Þór Guðmundsson 7, Lewis Clinch Jr. 6/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 5/7 fráköst.