Grindvíkingar reyna við Færeying
Ingvar Guðjónsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Grindavíkur, er nú staddur í Klakksvík í Færeyjum til að ræða við Hjalgrím Elttör, sóknarmann KÍ-liðsins, samkvæmt fréttum mbl.is. Það dylst engum að Grindvíkingar þurfa sárlega á sóknarmanni að halda eftir að ljóst var að Grétar Hjartarson, skæðasti sóknarmaður liðsins undanfarin ár, gæti ekkert leikið með liðinu í sumar sökum ökklameiðsla. Ingvar var á vellinum í gær og sá KÍ leggja FS Vágum að velli með tveimur mörkum gegn engu. Í leiknum skoraði Elttör auk þess sem einum leikmanni FS Vágum var vikið af leikvelli eftir að hafa brotið á honum. Elttör er tvítugur sóknarmaður með 8 landsleiki að baki og þykir einn efnilegasti leikmaður Færeyja. Íslenskir knattspyrnuáhugamenn gætu munað eftir Elttör en hann kom inn á sem varamaður í leik Íslands og Færeyja á Laugardalsvellinum sem fram fór fyrr í þessum mánuði.
Fleiri fréttir afmbl.is
Fleiri fréttir af