Grindvíkingar ósáttir við úrskurð skattrannsóknarstjóra
Knattspyrnudeild Grindavíkur þarf að greiða 10 milljónir króna vegna vangoldins virðisaukaskatts, en sektin er frá árinu 1995. Þetta kom í ljós í gær þegar knattspyrnudeild Grindavíkur lýstu því yfir að samningafundur til að leysa deilu þeirra við skattayfirvöld hefði engan árangur borið og því komi ekkert annað til greina frá sjónarhóli yfirvalda en að skuldin verði greidd að fullu.
Þennan málarekstur má rekja allt aftur til þess að stjórnvöld ákváðu árið 1993 að íþróttafélög, stjórnmálaflokkar, blaðburðarfólk og aðrir sem höfðu fram að því verið látnir óáreittir gegn opinberum aðilum, skyldu þar eftir hlýta sömu reglum og aðrir hvað varðaði skattheimtu. Þau skyldu þess vegna skila launaframtali og halda nákvæmt bókhald yfir rekstur sinn eins og hver önnur fyrirtæki. Það kom flatt upp á íþróttafélögin sem höfðu fram að því ekki hugsað mikið um bókhald og þess háttar.
Í framhaldi af því fór skattstjóri af stað með rannsókn á fjárhag félaganna og ákvað að rannsaka 4 deildir af handahófi. Um var að ræða knattspyrnudeild Grindavíkur og FH auk körfuknattleiks- og knattspyrnudeildar Njarðvíkur.
Tekin voru til hliðsjónar sex árin þar á undan, þ.e. 1988-1993, og átti af þeim að ráða hvernig venjubundinn rekstur hafi verið á tímabilinu. Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að á þessum tíma hafi félagið verið í þriðju deild (sem nú er 2.deild) í tvö af þessum árum og hin fjögur í 2. deild (nú 1.deild) og því hafi reksturinn ekki verið stór í sniðum miðað við liðin í efstu deild sem mörg hver tóku þátt í Evrópukeppnum og þar fram eftir götunum. Knattspyrnudeildin í Grindavík hafi þó fært bókhald allt frá 1977 og sami bókari hafi séð um bókhaldið fram á þennan dag.
„Það var ýmislegt í ólagi í þessum efnum hjá okkur eins og öllum liðum. Við lögðum til dæmis ekki virðisaukaskatt á auglýsingar sem við seldum, og sendum ekki inn launaframtöl þegar um slíkt var beðið vegna þess að við áttum enga slíka pappíra. Hin félögin voru í nákvæmlega sömu málum og við en í stað þess að koma hreint fram eins og við gerðum, teiknuðu þau bara upp einhverja platmiða sem þau skiluðu sem alvöru gögnum.“
Jónas leggur mikla áherslu á að Grindavík hafi strax brugðist við með réttum vinnubrögðum. „Allt frá og með 1995 höfum við rekið deildina líkt og hvert annað fyrirtæki, með miklum sóma og enginn hefur tapað krónu í viðskiptum við okkur. Á stórum fundi í Laugardal það sama ár kom fram hjá fulltrúa skattayfirvalda og forseta ÍSÍ, Ellerti Schram, að nú kæmu allir jafnir að sama borði og tækju upp rétt vinnubrögð og fortíðin skildi gleymd. Engu að síður var áætluð á okkur sekt upp á 2 milljónir króna vegna þessara gömlu synda þegar rannsókninni lauk 1995.“ Jónas sagði að eftir þennan úrskurð hefði knattspyrnudeildin þrjóskast við að borga sektina af þeirri ástæðu að þeim fannst ekki komið fram við félög með jafnaðarreglu að sjónarmiði. „Það vita allir að mörg félög skila inn gögnum sem ekki er sannleikskorn í og ef á að refsa okkur vil ég að það sama gangi yfir alla. Ég sagði við Skúla Eggert Þórðarson, skattrannsóknarstjóra, að ef að við þyrftum að sætta okkur við þessa sekt skyldu hann og hans menn taka öll úrvalsdeildarfélögin fyrir og skoða þeirra launaframtöl.“
Nú þegar komið er að skuldadögum hefur upprunalega sektarupphæðin fimmfaldast vegna vaxta, fjárnámsbeiðna og annarra gjalda og nemur nú 10 milljónum króna. Ljóst er að greiðsla slíkrar sektar mun kollvarpa öllu því starfi sem hefur verið unnið í Grindavík síðustu árin og hefur orðið til þess að byggja upp sterkt lið sem hefur staðið sig vel í keppnum hér heima, þrátt fyrir misjafnt gengi á síðustu leiktíð, og tekið þátt í Evrópukeppnum. Jónas er á þeirri skoðun að þetta geti gert útaf við knattspyrnudeildina. „Það er nú nógu erfitt að reka deildina frá degi til dags án þess að þurfa að vera með svona skuld á bakinu. Þetta drepur niður allar okkar vonir um að fá til okkar leikmenn og án þess gengur reksturinn ekki upp og við þurfum að fara að íhuga, þó ég megi varla hugsa til þess, að lýsa yfir gjaldþroti! Ef slíkt kæmi til fengi ríkið ekki krónu í vasann vegna þess að deildin sem slík er alveg eignalaus. Ég tel rétt að við greiðum höfuðstólinn, eða því sem næst. Þannig tryggjum við framhald knattspyrnudeildarinnar og ríkið fær pening í kassann.“
Jónas heldur áfram að lýsa vonbrigðum sínum en segist helst vera sár vegna þess að þeim sé refsað en önnur félög sleppi skammlaust úr sömu málum. „Við erum bara gerðir að fórnarlömbum fyrir önnur félög. Krafa okkar er sú að önnur félög muni einnig þurfa að opna sín bókhöld og sýna hvað þar fer fram. Ef þessi 10 milljóna sekt fær að standa mun fótunum vera kippt undan okkur. Mér finnst það vera fyrir neðan virðingu opinberra aðila að leggjast svo lágt að vera að hamast svona á íþróttafélögum, sem vinna samfélaginu ómælt gagn t.d. í formi forvarna gegn eiturlyfjum og öðru böli.“
Jónas klykkir út með því að lofa starf þeirra sem hafa unnið svo dyggilega að knattspyrnumálum í Grindavík
„Meðalstarfsaldur stjórnarmanna í Grindavík er 18 ár, hér eru 100% hugsjónarmenn að störfum sem hafa byggt upp félag úr neðstu deild og uppí efstu deild og tekið þátt í allri uppbygginu á öllum þeim mannvirkjum tengdum knattspyrnu sem Grindvíkingar státa af, og hér endurtekur sagan sig, því í gegnum söguna hafa hugsjónarmenn lent í tómum vandræðum og jafnvel verið drepnir, samanber Jesús, Gandhi, Martin Luther King og John Lennon.“
Þennan málarekstur má rekja allt aftur til þess að stjórnvöld ákváðu árið 1993 að íþróttafélög, stjórnmálaflokkar, blaðburðarfólk og aðrir sem höfðu fram að því verið látnir óáreittir gegn opinberum aðilum, skyldu þar eftir hlýta sömu reglum og aðrir hvað varðaði skattheimtu. Þau skyldu þess vegna skila launaframtali og halda nákvæmt bókhald yfir rekstur sinn eins og hver önnur fyrirtæki. Það kom flatt upp á íþróttafélögin sem höfðu fram að því ekki hugsað mikið um bókhald og þess háttar.
Í framhaldi af því fór skattstjóri af stað með rannsókn á fjárhag félaganna og ákvað að rannsaka 4 deildir af handahófi. Um var að ræða knattspyrnudeild Grindavíkur og FH auk körfuknattleiks- og knattspyrnudeildar Njarðvíkur.
Tekin voru til hliðsjónar sex árin þar á undan, þ.e. 1988-1993, og átti af þeim að ráða hvernig venjubundinn rekstur hafi verið á tímabilinu. Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að á þessum tíma hafi félagið verið í þriðju deild (sem nú er 2.deild) í tvö af þessum árum og hin fjögur í 2. deild (nú 1.deild) og því hafi reksturinn ekki verið stór í sniðum miðað við liðin í efstu deild sem mörg hver tóku þátt í Evrópukeppnum og þar fram eftir götunum. Knattspyrnudeildin í Grindavík hafi þó fært bókhald allt frá 1977 og sami bókari hafi séð um bókhaldið fram á þennan dag.
„Það var ýmislegt í ólagi í þessum efnum hjá okkur eins og öllum liðum. Við lögðum til dæmis ekki virðisaukaskatt á auglýsingar sem við seldum, og sendum ekki inn launaframtöl þegar um slíkt var beðið vegna þess að við áttum enga slíka pappíra. Hin félögin voru í nákvæmlega sömu málum og við en í stað þess að koma hreint fram eins og við gerðum, teiknuðu þau bara upp einhverja platmiða sem þau skiluðu sem alvöru gögnum.“
Jónas leggur mikla áherslu á að Grindavík hafi strax brugðist við með réttum vinnubrögðum. „Allt frá og með 1995 höfum við rekið deildina líkt og hvert annað fyrirtæki, með miklum sóma og enginn hefur tapað krónu í viðskiptum við okkur. Á stórum fundi í Laugardal það sama ár kom fram hjá fulltrúa skattayfirvalda og forseta ÍSÍ, Ellerti Schram, að nú kæmu allir jafnir að sama borði og tækju upp rétt vinnubrögð og fortíðin skildi gleymd. Engu að síður var áætluð á okkur sekt upp á 2 milljónir króna vegna þessara gömlu synda þegar rannsókninni lauk 1995.“ Jónas sagði að eftir þennan úrskurð hefði knattspyrnudeildin þrjóskast við að borga sektina af þeirri ástæðu að þeim fannst ekki komið fram við félög með jafnaðarreglu að sjónarmiði. „Það vita allir að mörg félög skila inn gögnum sem ekki er sannleikskorn í og ef á að refsa okkur vil ég að það sama gangi yfir alla. Ég sagði við Skúla Eggert Þórðarson, skattrannsóknarstjóra, að ef að við þyrftum að sætta okkur við þessa sekt skyldu hann og hans menn taka öll úrvalsdeildarfélögin fyrir og skoða þeirra launaframtöl.“
Nú þegar komið er að skuldadögum hefur upprunalega sektarupphæðin fimmfaldast vegna vaxta, fjárnámsbeiðna og annarra gjalda og nemur nú 10 milljónum króna. Ljóst er að greiðsla slíkrar sektar mun kollvarpa öllu því starfi sem hefur verið unnið í Grindavík síðustu árin og hefur orðið til þess að byggja upp sterkt lið sem hefur staðið sig vel í keppnum hér heima, þrátt fyrir misjafnt gengi á síðustu leiktíð, og tekið þátt í Evrópukeppnum. Jónas er á þeirri skoðun að þetta geti gert útaf við knattspyrnudeildina. „Það er nú nógu erfitt að reka deildina frá degi til dags án þess að þurfa að vera með svona skuld á bakinu. Þetta drepur niður allar okkar vonir um að fá til okkar leikmenn og án þess gengur reksturinn ekki upp og við þurfum að fara að íhuga, þó ég megi varla hugsa til þess, að lýsa yfir gjaldþroti! Ef slíkt kæmi til fengi ríkið ekki krónu í vasann vegna þess að deildin sem slík er alveg eignalaus. Ég tel rétt að við greiðum höfuðstólinn, eða því sem næst. Þannig tryggjum við framhald knattspyrnudeildarinnar og ríkið fær pening í kassann.“
Jónas heldur áfram að lýsa vonbrigðum sínum en segist helst vera sár vegna þess að þeim sé refsað en önnur félög sleppi skammlaust úr sömu málum. „Við erum bara gerðir að fórnarlömbum fyrir önnur félög. Krafa okkar er sú að önnur félög muni einnig þurfa að opna sín bókhöld og sýna hvað þar fer fram. Ef þessi 10 milljóna sekt fær að standa mun fótunum vera kippt undan okkur. Mér finnst það vera fyrir neðan virðingu opinberra aðila að leggjast svo lágt að vera að hamast svona á íþróttafélögum, sem vinna samfélaginu ómælt gagn t.d. í formi forvarna gegn eiturlyfjum og öðru böli.“
Jónas klykkir út með því að lofa starf þeirra sem hafa unnið svo dyggilega að knattspyrnumálum í Grindavík
„Meðalstarfsaldur stjórnarmanna í Grindavík er 18 ár, hér eru 100% hugsjónarmenn að störfum sem hafa byggt upp félag úr neðstu deild og uppí efstu deild og tekið þátt í allri uppbygginu á öllum þeim mannvirkjum tengdum knattspyrnu sem Grindvíkingar státa af, og hér endurtekur sagan sig, því í gegnum söguna hafa hugsjónarmenn lent í tómum vandræðum og jafnvel verið drepnir, samanber Jesús, Gandhi, Martin Luther King og John Lennon.“