Grindvíkingar og Blikar skiptu með sér stigunum
Grindvíkingar fengu eitt stig úr viðureign sinni gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks rétt í þessu þegar liðin skildu jöfn 1-1 í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.
Blíðskapar veður var í Grindavík eins og annars staðar á suðvesturhorninu í kvöld og kjöraðstæður til knattspyrnuiðkunar. Breiðablik komst yfir með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu en það gerði Kristinn Jónsson á 10. mínútu. Það gerðist ekki mikið markvert í fyrri hálfleik eftir það mark en Blikar voru talsvert með boltann.
Grindvíkingar hresstust við í síðari hálfleik og svöruðu með marki frá Scott Ramsay á 57. mínútu. Alexander Magnússon sendi þá boltann fyrir frá vinstri og Scott Ramsay tók hann laglega á lofti við fjarstöngina og smellti honum í netið. Eftir markið kom töluvert líf í heimamenn en ekki náðu þeir að skapa sér ákjósanleg færi. Haukur Ingi Guðnason átti lipra spretti eftir að hann kom inn í síðari hálfleik en Scott Ramsay var þungamiðjan í sóknarleik Grindvíkinga í kvöld. Óskar Pétursson varði svo mjög vel þegar skammt var til leiksloka og kom í veg fyrir að stigin lentu Kópavogsmegin í kvöld.
Lokatölur urðu eins og áður segir og eru Grindvíkingar því enn þremur stigum á eftir Blikum og sitja í 10. sæti deildarinnar.
Staðan í Pepsi-deild karla
Alexander og Scott Ramsay fagna marki Skotans knáa
Robbie Winters í baráttu við varnarmann Blika
Myndir/EJS: Efst: Scott Ramsay afgreiðir hér boltann framhjá Ingvari Kale í marki Blika.