Grindvíkingar niðurlægðir í Garðabæ
Lokatölur 93-56 er Stjarnan jafnaði metin
Annar leikur í rimmu Grindavíkur og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta rennur Grindvíkingum sennilega seint úr minni. Enda hafði Stjarnan stórsigur í leiknum 93-56!
Garðbæingar náðu fljótlega undirtökunum og í hálfleik munaði 15 stigum á liðinum. Grindvíkingar mættu svo hreinlega ekki til leiks í seinni hálfleik og á köflum var munirnn um 40 stig. Það er ótrúlegt að svona tölur sjáist í lokaúrslitum en nú hafa Stjörnumenn jafnað einvígið eftir að Grindvíkingar sigruðu nokkuð örugglega í síðasta leik. Erlendu leikmennirnir í liði Grindvíkinga áttu ágætis dag en aðrir voru langt frá sínu besta. Grindvíkingar skoruðu aðeins átta stig í lokaleikhlutanum en það verður að teljast ansi óvenjulegt hjá svo sterku liði. Næsti leikur fer fram í Grindavík á mánudaginn næstkomandi en spennandi verður að sjá hvernig Grindvíkingar svara þessari útreið.
Tölfræðin:
Stjarnan-Grindavík 93-56 (23-18, 26-16, 26-14, 18-8)
Grindavík: Aaron Broussard 20, Samuel Zeglinski 15/7 fráköst, Þorleifur Ólafsson 9, Jóhann Árni Ólafsson 4/7 fráköst, Davíð Ingi Bustion 4, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 2/5 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 2, Daníel G. Guðmundsson 0, Ólafur Ólafsson 0/5 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ryan Pettinella 0.
Stjarnan: Justin Shouse 16/10 fráköst/5 stoðsendingar, Jarrid Frye 15/6 fráköst, Brian Mills 14, Marvin Valdimarsson 13/6 fráköst, Jovan Zdravevski 12/7 fráköst, Fannar Freyr Helgason 9/10 fráköst, Dagur Kár Jónsson 5, Sæmundur Valdimarsson 4, Kjartan Atli Kjartansson 3, Oddur Rúnar Kristjánsson 2, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0.