Grindvíkingar náðu fram hefndum
Áfram í bikarnum eftir sætan sigur gegn Keflvíkingum
Nafn Grindavíkur verður í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitum Geysisbikarsins í körfubolta karla. Þeir náðu fram hefndum gegn grönnum sínum frá Keflavík og höfðu 80-65 sigur á heimvelli sínum. Það var allt annað Grindavíkurlið sem mætti til leiks en það sem tapaði fyrir grönnum sínum með 35 stiga mun þegar liðin mættust í deildarkeppninni á dögunum. Það var einhver gleði yfir heimamönnum á meðan Keflvíkingar virkuðu pirraðir og úr fókus.
Munurinn var lengst af í kringum tíu stigin og Keflvíkingar voru í eltingarleik allt frá fyrsta leikhluta. Grindvíkingar hrukku í gang strax í lok fyrsta leikhluta og þriggja stiga skotin fóru að rata rétta leið. Þeir voru heitir fyrir utan í leiknum, hittu 40% á meðan Keflvíkingar voru með 22% nýtingu þar.
Staðan var 43-32 í hálfleik gulum í vil. Hörður Axel rankaði við sér í þriðja leikhluta og minnkaði muninn fyrir Keflavík í góðu áhlaupi en Grindvíkingar héldu sjó og höfðu tíu stiga forystu þegar haldið var í síðasta leikhluta, 59-49 staðan þá. Áfram hélt gleðin hjá Grindvíkingum og þeir tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum eins og áður segir.
Stemningin var góð í Röstinni og heimamenn virtust njóta þess. Ólafur Ólafsson átti frábæran leik fyrir Grindavík, skoraði 20 stig, tók 13 fráköst og varði 2 skot.
Hjá Keflvíkingum var Craion bestur með 18 stig, 9 fráköst, 2 stolna og 2 varin.
Grindavík: Lewis Clinch Jr. 21, Ólafur Ólafsson 20/13 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 15/9 fráköst/7 stoðsendingar, Jordy Kuiper 10/8 fráköst, Johann Arni Olafsson 8, Tiegbe Bamba 6/7 fráköst, Hilmir Kristjánsson 0, Kristófer Breki Gylfason 0, Hlynur Hreinsson 0, Nökkvi Már Nökkvason 0, Sverrir Týr Sigurðsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0.
Keflavík: Michael Craion 18/9 fráköst/5 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 15/8 stoðsendingar/5 stolnir, Gunnar Ólafsson 14/5 fráköst, Reggie Dupree 6, Javier Seco 5/10 fráköst, Mantas Mockevicius 3, Magnús Már Traustason 2, Guðmundur Jónsson 2, Sigurþór Ingi Sigurþórsson 0, Elvar Snær Guðjónsson 0, Ágúst Orrason 0, Davíð Páll Hermannsson 0.