Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Grindvíkingar mörðu Njarðvíkinga
Fimmtudagur 5. janúar 2012 kl. 22:09

Grindvíkingar mörðu Njarðvíkinga

Topplið Grindvíkinga í Iceland Express deildinni í körfubolta átti í töluverðu basli með sprækt lið Njarðvíkinga í Röstinni í kvöld en lönduðu þó sigri eftir spennandi leik. Lokatölur urðu 73-65 og allt útlit var fyrir að jólasteikin sæti enn í nokkrum leikmanna liðanna.

Svakaleg troðsla hjá Bullock kom Grindvíkingum í 17-10 þegar að rúmar fjórar mínútur voru eftir af 1. leikhluta og um stundarsakir var stemningin í stúkunni eins og á góðum tónleikum hjá Gylfa Ægissyni. Grindvíkingar létu svo kné fylgja kviði og munurinn var kominn í 11 stig á innan við mínútu. Þá komu Njarðvíkingar með gott áhlaup þar sem þeir skoruðu 6 stig í röð og Helgi Jónas tók leikhlé. Sigurður Þorsteinsson fékk á þessum tímapunkti sína þriðju villu og settist því á bekkinn. Þar var fyrir Páll Axel Vilbergsson sem ekki lék með sökum meiðsla í hásin, en meiddist á æfingu í gær.

Svæðisvörn Njarðvíkinga hvatti Grindvíkinga til að skjóta meira fyrir utan og það gerðu þeir svo sannarlega. Grindvíkingar voru 24-16 yfir þegar 1. leikhluta lauk og leikurinn hin mesta skemmtun. J´Nathan Bullock var þá kominn með 11 af stigum heimamanna og Cameron Echols var með 10 stig hjá grænklæddum.

Björn Steinar Brynjólfsson negldi niður 5 stigum í röð hjá Grindvíkingum og munurinn aftur 11 stig þegar flautað var aftur til leiks. Njarðvíkingar voru að skjóta töluvert fyrir utan milli þess sem þeir dældu inn á Echols sem var heitur. Það sama er ekki hægt að segja um þriggjastiga skyttur Njarðvíkinga sem voru ekki að finna sig enda rötuðu aðeins 2 skot fyrir utan í körfuna, 14 þeirra gerðu það hins vegar ekki.

Staðan var 40-32 í hálfleik og það verður að teljast frekar lítið stigaskor, svona miðað við körfuboltaleik. Atkvæðamestir hjá liðunum voru þeir J´Nathan Bullock með 14 stig og Ólafur Ólafsson með 7 stig hjá Grindvíkingum. Hjá Njarðvík var Echols með 14 stig og Travis Holmes var með 8.

Þegar síðari hálfleikur hófst þá virtist eins og getumunurinn á liðinum væri að koma í ljós. Grindvíkingar settu einfaldlega í annan gír og juku muninn í 14 stig. Njarðvíkingar voru þó ekki dauðir úr öllum æðum og minnkuðu forskot Grindvíkinga í 6 stig á innan við mínútu. Svo var sett í svæðisvörn hjá grænum og heimamenn voru ráðalausir í sóknarleiknum.
Áður en varði var munurinn orðinn 2 stig, 53-51 og Njarðvíkingar allir að færast í aukana. Það lifnaði heldur betur yfir leiknum í lok 3. leikhluta og allt útlit fyrir spennu síðustu 10 mínúturnar enda setti Maciej Baginski þrist af dýrari gerðinni þegar leiktíminn var að renna út og breytti stöðunni í 57-56. Njarðvíkingar höfðu þá skorað 17 stig gegn 4 hjá Grindavík í lok leikhlutans.

Leikurinn var hnífjafn allan 4. leikhlutann en þegar 3 mínútur lifðu af leiknum komust Grindvíkingar 5 stigum yfir, 66-61 og Njarðvíkingar tóku leikhlé. Travis Holmes keyrði svo að körfunni þegar að rúmar 2 mínútur voru eftir af leiknum og fékk tvö vítaskot sem hann setti örugglega niður og munurinn 3 stig. Bullock svaraði hinu meginn og Njarðvíkingar klikkuðu í næstu sókn. Sigurður Þorsteinsson skoraði fyrir Grindavík en Elvar Friðriksson minnkaði muninn aftur í 5 stig á hinum endanum og höfuð Njarðvíkinga enn á yfirborðinu. Ólafur Ólafs gulltryggði svo nánast sigurinn fyrir Grindvíkinga þegar hann blakaði boltanum glæsilega ofaní og á endanum höfðu Grindvíkingar sigur, lokatölur 73-65.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024