Grindvíkingar misnotuðu færin og eru úr leik í bikarnum
Grindavík tók á móti ÍR úr Breiðholti í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu í kvöld. Þrátt fyrir færin skoruðu Grindvíkingar aðeins eitt mark gegn tveimur mörkum Breiðhyltinga sem eru komnir áfram í sextán liða úrslit en Grindvíkingar sitja eftir með sárt ennið.
Það verður að segjast eins og er að það er með ólíkindum að boltinn hafi ekki ratað rétta leið í fyrri hálfleik hjá Grindvíkingum. Nokkur sannkölluð dauðafæri fóru forgörðum í fyrri hálfleik hjá Grindavík en nýting ÍR-inga var talsvert betri.
Leikurinn var skemmtilegur og bæði lið léku ágætlega – en það eru mörkin sem telja. Grindvíkingar voru hættulegri fram á við og voru oft við það að komast alla leið, vantaði bara herslumuninn. Dagur Ingi Hammer fór fyrir sókninni og var líflegur í framlínunni. ÍR-ingar voru alls óhræddir við að pressa hátt og þeir uppskáru mark á 24. mínútu eftir að heimamenn höfðu í tvígang verið nærri því að komast yfir.
Það þýddi ekkert annað fyrir Grindvíkinga en að halda áfram og sókn þeirra þyngdist. Kristófer Páll Viðarsson var skeinuhættur við mark gestanna og fékk sannkallað dauðafæri til að jafna leikinn þegar hann fékk fyrirgjöf á fjærstöng, nánast upp við markið, en af inn vildi boltinn ekki.
Kristófer hélt áfram að ógna en það má hrósa Breiðhyltingar sem vörðust vel og héldu áfram að pressa hátt. Það var oft að valda vörn Grindvíkinga talsverðum vandræðum en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikur var ekki gamall þegar Grindavík loks braut ísinn. Þá gaf Símon Logi Thasaphong góða sendingu inn á teig ÍR þar sem Dagur Ingi var mættur og hamraði skallann niður og upp í þaknetið (52'). Gott mark og búið að liggja í loftinu í talsverðan tíma. Þarna hélt undirritaður að björninn væri unninn og heimamenn myndu sigla þessu í land – en ÍR-ingar voru ekki á sama máli. Gestirnir létu markið ekki á sig fá og aðeins þremur mínútum síðar voru þeir komnir í forystu á nýjan leik (55'). Markið kom upp úr föstu leikatriði; aukaspyrna frá vinstri á fjær, skallað inn að marki þar sem sóknarmaður mætti og kláraði málið. Eiginlega of auðvelt og blaut tuska í andlit Grindvíkinga sem voru búnir að sækja stíft og loksins skora.
Það tók heimamenn smá tíma að jafna sig á því að lenda undir aftur en smám saman náðu þeir sér á strik á ný og voru til þess líklegir að jafna. Aftur fékk Dagur Ingi fínan séns þegar Kristófer Páll skallaði fyrirgjöf fyrir fætur Dags Inga en hann náði ekki til boltans.
Vendipunktur leiksins varð svo um fimmtán mínútum fyrir leikslok þegar Thiago Dylan Ceijas fór í háskalega tæklingu á miðjum vellinum, tveggja fóta að mér sýndist, og uppskar beint rautt spjald. Það gerði út um vonir heimamanna sem reyndu hvað þeir gátu fram á við en ÍR-ingar voru ekki á því að pakka í vörn og héldu stífri pressu á vörn Grindavíkur löngum stundum. Tap á heimavelli niðurstaðan í annars skemmtilegum leik við frábærar aðstæður í Grindavík.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og má sjá myndasyrpu frá leiknum neðar á síðunni.