Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar misnotuðu færin og dómarinn sleppti augljósu víti
Edi Horvat fékk dauðafæri snemma leiks en fór illa með það. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 16. júní 2023 kl. 13:11

Grindvíkingar misnotuðu færin og dómarinn sleppti augljósu víti

Grindavík er að dragast örlítið aftur úr í toppbaráttunni í Lengjudeild karla í knattspyrnu en liðið hefur ekki náð sigri í síðustu þremur leikjum. Í gær tóku Grindvíkingar á móti Fjölni, sem vermir topp deildarinnar, og það endaði leikurinn með sigri gestanna, 1:0.

Grindavík var án lykilleikmanna í gær en Óskar Örn Hauksson, Guðjón Pétur Lýðsson og Sigurjón Rúnarsson voru ekki í hópnum. Það var því viðbúið að Grindvík myndi leggja áherslu á agaðan varnarleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölnismenn voru sterkari í fyrri hálfleik en Grindvíkingar vörðust vel og fengu sennilega besta færi hálfleiksins snemma leiks þegar markvörður Fjölnis átti slaka sendingu á samherja. Grindvíkingar komust inn í sendinguna og Edi Horvat var skyndilega einn á móti markmanni. Horvat fór illa með gott færi, gaf sér of langan tíma og markvörður Fjölnis náði að loka á skotið.

Sóknarþungi Fjölnis jókst eftir því sem leið á fyrri hálfleik en Grindvíkingar voru stöðugt ógnandi með hröðum sóknum inn á milli. Fjölnismenn komust yfir á 39. mínútu þegar vörn Grindavíkur sofnaði á verðinum og Hans Viktor Guðmundsson lék í gegnum hana frekar fyrirhafnarlítið. Augnabliks einbeitingarleysi og Grindvíkingar einu marki undir í hálfleik.

Grindvíkingar börðust vel í seinni hálfleik en því miður uppskáru þeir ekki eftir því.

Heimamenn voru ákveðinir í að jafna leikinn í seinni hálfleik og oft var pressan mikil að marki Fjölnis. Á 53. mínútu tóku Grindvíkingar hornspyrnu sem Marko Vidic skallaði í þverslána, eftir smá darraðadans í teignum náðu Grindvíkingar skoti að marki en þrátt fyrir að boltinn færi augljólega í höndina á varnarmanni Fjölnis virðist sem dómaranum hafi yfirsést þetta mikilvæga atvik.

Grindvíkingar áttu fleiri hættuleg færi en var fyrirmunað að koma boltanum yfir línuna og Fjölnismenn fögnuðu innilega sigrinum að lokum.

Símon Logi Thasapong nærri því að jafna.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Stakkavíkurvelli í gær og er myndasafn úr leiknum neðst á síðunni. Þá er hægt að horfa á leikinn í spilaranum hér að neðan.

Grindavík - Fjölnir (0:1) | Lengjudeild karla 15. júní 2023