Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar meistarar meistaranna eftir sigur á Keflavík
Föstudagur 5. október 2012 kl. 06:39

Grindvíkingar meistarar meistaranna eftir sigur á Keflavík

Íslandsmeistarar Grindavíkur lögðu granna sína í Keflavík, 92-83, í árlegri viðureign meistaraliðanna frá síðustu..

Íslandsmeistarar Grindavíkur lögðu granna sína í Keflavík, 92-83, í árlegri viðureign í Meistarakeppni KKÍ sem fram fór í Röstinni í Grindavík í gærkvöld. Venja er að Íslandsmeistaraliðið fá heimaleik við þetta tilefni og tóku Grindvíkingar því á móti bikarmeistararaliði Keflavíkur. Þetta fyrsti titill gulklædda á þessari leiktíð og jafnframt fyrsti titilinn undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar sem tók við stjórnartaumunum í sumar.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn gríðarlega vel og komust í 13-2 eftir um fjögurra mínútna leik en þá tóku gestirnir frá Keflavík við sér og komust yfir. Heimamenn leiddu þó eftir fyrsta leikhluta 26-23. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og var staðan 42-41 í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar náðu taki á leiknum í þriðja leikhluta sem þeir unnu 28-15. Þeir gulklæddu fóru með 14 stiga forystu inn í lokaleikhlutann og uppskáru að lokum góðan níu stiga sigur. Það var svo fyrirliði Grindavíkur, Þorleifur Ólafsson, sem tók við bikarnum í leikslok við fögnuð heimamanna. Þetta er í fjórða sinn sem Grindvíkingar hampa þessum titli en það gerðu þeir einnig árin 1996, 1998 og 2011.

Nýi erlendi leikmaðurinn hjá Grindavík, Aaron Broussard átti stórleik og skoraði 36 stig en Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 21 stig. Darrel Keith Lewis skoraði 17 stig fyrir Keflavík og Valur Orri Valsson og Magnús Þór Gunnarsson skoruðu báðir 15 stig.

Grindavík-Keflavík 92-83 (26-23, 16-18, 28-15, 22-27)

Stig Grindavíkur: Aaron Broussard 36/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 21/7 fráköst/4 varin skot, Samuel Zeglinski 10/8 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 7/7 fráköst, Þorleifur Ólafsson 6, Jóhann Árni Ólafsson 6/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ármann Vilbergsson 4, Jón Axel Guðmundsson 2.

Stig Keflavíkur: Darrel Keith Lewis 17/6 fráköst/5 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 15, Valur Orri Valsson 15/5 stoðsendingar, Kevin Giltner 14, Snorri Hrafnkelsson 10, Almar Stefán Guðbrandsson 5/5 fráköst, Andri Daníelsson 4/4 fráköst, Hafliði Már Brynjarsson 3.