Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Grindvíkingar með sigur í Ljónagryfjunni
Grindavík vann góðan sigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni í gær. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 7. júní 2021 kl. 09:11

Grindvíkingar með sigur í Ljónagryfjunni

Njarðvík - Grindavík 63:68 (16:9, 22:24, 19:22, 6:13)

Það var hart barist í úrslitum 1. deildar kvenna í körfubolta í gær þegar Grindavík lék gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni. Njarðvík leiddi einvígið með tveimur sigrum gegn engum en Grindvíkingar voru ekki á þeim buxunum að tapa þriðja leiknum og reyndust sterkari á lokahlutanum.

Lið Njarðvíkur mættu barráttuglatt til leiks og þær náðu góðri forystu í fyrsta og öðrum leikhluta, munurinn varð mestur þrettán stig (25:12) snemma í öðrum leikhluta en þá tóku Grindvíkingar við sér og hófu að saxa á forskotið jafn og þétt. Þær gulklæddu náðu forystu þeirra grænu niður í fimm stig fyrir hálfleik, staðan 38:33.

Grindavík mætti vel stemmt til leiks í þriðja leikhluta og höfðu minnkað forskot Njarðvíkinga í eitt stig um miðjan leikhlutann (49:48) og jöfnuðu leikinn í fyrsta sinn frá annarri mínútu. Njarðvík leiddi með tveimur stigum fyrir lokaleikhlutann, 57:55.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það stefndi í spennandi lokaleikhluta en Grindvíkingar skelltu vörninni í lás og sáu til þess að Njarðvíkingar skoruðu aðeins sex stig í fjórða leikhluta. Grindavík seig fram úr og hafði að lokum góðan baráttusigur, 63:68.

Janno Jaye Otto var með 26 stig, sjö fráköst og þrjú varin skot en þær Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir og Hekla Eik Nökkvadóttir voru með tólf stig hvor í liði Grindavíkur. Hjá Njarðvík var Chelsea Jennings með 21 stig og fimm fráköst og Helena Rafnsdóttir gerði nítján stig og hirti átta fráköst.

Stemmningin á leiknum var góð og áhorfendur vel með á nótunum í gær. Njarðvíkurhlutinn var stappfullur og fjöldi Grindvíkinga mætti í Njarðvík til að hvetja sitt lið til sigurs. Með sigrinum halda Grindvíkingar í vonina um sæti í efstu deild að ári en fjórði leikurinn fer fram á heimavelli þeirra í Grindavík á miðvikudag, vinni þær hann verður leikinn hreinn úrslitaleikur í Ljónagryfjunni á laugardag.

Frammistaða Njarðvíkinga: Chelsea Nacole Jennings 21/5 fráköst, Helena Rafnsdóttir 19/8 fráköst, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 10, Kamilla Sól Viktorsdóttir 8, Vilborg Jónsdóttir 5/7 fráköst/12 stoðsendingar, Guðbjörg Einarsdóttir 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Júlia Scheving Steindórsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Þuríður Birna Björnsdóttir 0/4 fráköst, Eva María Lúðvíksdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.
Frammistaða Grindvíkinga: Janno Jaye Otto 26/7 fráköst/3 varin skot, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 12/9 fráköst, Hekla Eik Nökkvadóttir 12/8 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir 8, Sædís Gunnarsdóttir 6, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 4/10 fráköst, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 0, Arna Sif Elíasdóttir 0, Anna Margrét Lucic Jónsdóttir 0, Viktoría Rós Horne 0, Edda Geirdal 0, Helga Rut Hallgrímsdóttir 0.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni og tók meðfylgjandi myndir sem má sjá í myndasafni neðar á síðunni.

Njarðvík - Grindavík (63:68) |Úrslit 1. deildar kvenna 6. júní 2021