Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar með meistaratakta í Ljónagryfjunni
Clinch fór á kostum í kvöld.
Mánudagur 7. apríl 2014 kl. 20:48

Grindvíkingar með meistaratakta í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingar sáu aldrei til sólar

Grindvíkingar sýndu af hverju þeir eru ríkjandi Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára, þegar þeir unnu öruggan sigur á Njarðvíkingum í undanúrslitum Domino's deildar karla í kvöld. Grindvíkingar jöfnuðu einvígi liðanna með sannfærandi 73-95 sigri í Ljónagryfjunni. Staðan er 1-1 og næsti leikur í Grindavík.

Gestirnir höfðu undirtökin allt frá upphafi og fór Lewis Clinch hamförum í upphafi leiks hjá Grindvíkingum. Munurinn var orðinn 12 stig að loknum fyrsta leikhluta og ljóst að Clinch var klár í slaginn. Grindvíkingar voru betri á öllum sviðum og Clinch var kominn með 22 stig í hálfleik. Ómar Sævarsson var afar drjúgur í teignum en hann reif niður 10 fráköst og skoraði 10 stig í fyrri hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjá Njarðvík var Logi með 9 stig en Tracy Smith gældi við tvennuna með 11 stig og 9 fráköst. Staðan 36-47 og Grindvíkingar sjóðandi heitir í fyrri hálfleik.

Grindvíkingar héldu uppteknum hætti og sölluðu stigum á heimamenn. Njarðvíkingar þurftu nauðsynlega á framlagi frá bakvörðum sínum að halda en enginn nema Smith var með yfir 10 stig þegar fjórði leikhluti hófst og Grindvíkingar voru með 17 stiga forystu.

Njarðvíkingar áttu einnig í miklum erfiðleikum hvað varðar fráköstin en þeir Ómar Sævarsson og Sigurður Þorsteinsson voru allsráðandi í þeirri baráttu. Lið Njarðvíkinga tók alls 35 fráköst á meðan Ómar og Sigurður tóku 37. Lið Grindvíkinga var með 58 fráköst alls. Þeir Sigurður og Ómar áttu báðir stórleik ásamt Clinch en Njarðvíkingar réðu ekkert við þremenningana. Clinch skilaði 34 stigum á meðan stóru strákarnir voru báðir með hrikalega öflugar tvennur.

Njarðvíkingar voru svo með afleita nýtingu í þriggja stiga skotum í leiknum og virtust alls ekki finna sig á heimavelli þar sem þeir hafa núna ekki unnið Grindvíkinga síðan árið 2008. Aðeins 3 af 20 þriggja stiga skotum rötuðu rétta leið hjá Njarðvík, eða 15%. Grindvíkingar voru mun betri í kvöld og ef Njarðvíkingar fá ekki meira framlag frá leikmönnum eins og Loga og Elvari, þá gætu þeir verið á leið í sumarfrí fljótlega. Tracy Smith var með fínar tölur að vanda en aðrir voru ekki að finna sig.

Tölfræðin:

Njarðvík-Grindavík 73-95 (13-25, 23-22, 19-25, 18-23)

Njarðvík: Tracy Smith Jr. 29/12 fráköst, Elvar Már Friðriksson 12/4 fráköst, Logi Gunnarsson 9/7 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 9, Hjörtur Hrafn Einarsson 8/4 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 2, Egill Jónasson 2, Ólafur Helgi Jónsson 2, Ágúst Orrason 0, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Magnús Már Traustason 0, Brynjar Þór Guðnason 0.

Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr. 34, Ómar Örn Sævarsson 18/19 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/18 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 10, Ólafur Ólafsson 8/6 fráköst, Daníel Guðni Guðmundsson 8, Hinrik Guðbjartsson 3, Kjartan Helgi Steinþórsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0/5 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hilmir Kristjánsson 0, Magnús Már Ellertsson 0.