Grindvíkingar með forsölu á bikarúrslitaleikinn
- spennan magnast fyrir stórleikinn á laugardaginn í Laugardalshöll
Það er mikil spenna að myndast fyrir viðureign Grindavíkur og Keflavíkur í úrslitaleik Powerade-bikarkeppni kvenna í körfuknattleik sem fram fer á laugardaginn í Laugardalsöll. Grindvíkingar eru með forsölu á miðum á úrslitaleikinn og er hægt að nálgast miða hjá Lindu í Palóma milli kl. 10-12 og 14-18 alla virka daga. Þeir sem vilja geta einnig hringt í Lindu í síma 777-3322 og nálgast miðana eftir öðrum leiðum – segir á heimasíðu Grindvíkinga.
Miðarnir kosta 2.000 krónur í forsölu en 2.500 á leikdegi og gilda bæði á úrslitaleik kvenna og karla. Með því að kaupa miðana í heimabyggð rennur allur ágóðinn beint til UMFG en miðar keyptir á leikdegi skiptast í fernt á milli liðanna.
Grindvíkingar hvetja stuðningsmenn sína til þess að sýna hug sinn í verki og styðja við bakið á kvennaliðinu í þessu verkefni.