Grindvíkingar lögðu Eyjamenn
Grindvíkingar fóru vel af stað í Lengjudeild karla í knattspyrnu þegar þeir tóku á móti ÍBV á Grindavíkurvelli í gær. Heimamenn sýndi enga gestrisni og tóku öll stigin sem í boði voru.
Báðum liðum er spáð ofarlega í deildinni í ár af þjálfurum og fyrirliðum, ÍBV öðru sæti en Grindavík því fjórða. Grindvíkingar mættu grimmir til leiks og það var markahrókurinn Sigurður Bjartur Hallsson sem kom heimamönnum á bragðið með glæsilegu marki strax á 7. mínútu.
Á 28. mínútu tók Aron Jóhannsson aukaspyrnu sem hann sendi fyrir mark Eyjamanna þar sem varnarmenn ÍBV voru algerlega úti á þekju og Sigurjón Rúnarsson fékk boltann einn og óvaldaður. Hann þakkaði pent fyrir og afgreiddi með öryggi í netið (28'). Staðan orðin 2:0 og heimamenn héldu þeirri forystu þegar gengið var til hálfleiks.
Eyjamenn sóttu fast að marki Grindvíkinga í byrjun seinni hálfleiks. Þeir sköpuðu sér færi en fundu ekki leiðina í markið. Grindvíkingar voru hins vegar ekki hættir því á 56. mínútu áttu þeir háa sending í teig ÍBV sem Josip Zeba flikkaði aftur fyrir sig á Viktor Guðberg Hauksson. Aftur var vörn Eyjamanna steinsofandi og Viktor þurfti lítið að hafa fyrir markinu (56'), 3:0.
Sigurður Bjartur var manna sprækastur í leiknum og hélt áfram að ógna marki Eyjamanna en vörn þeirra átti dapran dag og Grindavík hefði hæglega geta skorað fleiri mörk. Það voru samt gestirnir sem skoruðu síðasta markið þegar um stundarfjórðungur var eftir en lengra komust þeir ekki. Lokatölur 3:1 og Grindavík komið með þrjú stig.
Páll Orri Pálsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók meðfylgjandi myndir.