Grindvíkingar leika upp á stoltið
Í dag hefst 20. umferð í Pepsi-deild karla í knattspyrnu með sex leikjum. Grindvíkingar leika síðasta heimaleik sinn í efstu deild í bili, þegar KR-ingar koma í heimsókn klukkan 17:00 í dag. Grindvíkingar eru þegar fallnir og mun liðið því fyrst og fremst leika upp á stoltið og fyrir stuðningsmenn sína.
„Þó svo að liðið sé fallið þá þýðir það ekki að menn leggi sig ekki fram í þá leiki sem eftir eru. Við erum jú íþróttamenn og viljum alltaf vinna, sama hver staðan er,“ sagði fyrirliði Grindvíkinga, Ólafur Örn Bjarnason í samtali við Víkurfréttir.
„Þó svo að KR hafi ekki gengið vel að undanförnu þá vita flestir Íslendingar að KR er sennilega best mannaða lið Íslands í dag. Við erum væntanlega ekki að fara að spila við KR á næsta ári og því verður gaman að mæta þeim,“ segir Ólafur en hann vill jafnframt hvetja Grindvíkinga til þess að fjölmenna á leikinn og hita vel upp fyrir lokahófið sem fram fer fljótlega.
Keflvíkingar fara austur á Selfoss og mæta þar Selfyssingum sem berjast fyrir sæti sínu í deildinni. Sá leikur hefst einnig klukkan 17:00.