Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 18. nóvember 2002 kl. 21:24

Grindvíkingar lágu í toppslag

Grindvíkingar töpuðu í kvöld á heimavelli gegn sterkum KR-ingum,71:82, í einvígi toppliðanna í Intersport deildinni í körfuknattleik. Heimamenn áttu í raun aldrei möguleika á sigri því gestirnir mættu mun ákveðnari til leiks og það var mikill munur á Grindavíkurliðinu í dag og því sem sigraði Keflavík í síðustu umferð. Darrell Lewis var bestur í liði Grindvíkinga með 24 stig og 8 fráköst, Helgi Jónas Guðfinnsson skoraði 12 stig og Bjarni Magnússon og Guðmundur Bragason voru með sín 10 stigin hvor.
Þess má geta að Páll Axel Vilbergsson sem átti stórleik gegn Keflavík um sl. helgi skoraði aðeins 6 stig og segir það allt sem segja þarf um hve slakir þeir voru.

"Við vorum ekki með hjartað á réttum stað í þessum leik og þegar við spilum ekki með hjartanu fer illa fyrir okkur. Við spiluðum lélega vörn og sóknin var eftir því", sagði Pétur Guðmundsson, framherjinn baráttuglaði í liði Grindvíkinga, dapur eftir leikinn.

Með sigrinum eru KR-ingar einir á toppi deildarinnar með 12 stig en Grindvíkingar eru í 2. sæti með 10 stig. Á morgun, þriðjudag, verður 7. umferðin kláruð með fimm leikjum en þar eigast m.a. við Keflavík og Valur í Valsheimilinu og Njarðvík og Tindastóll á Sauðárkróki. Leikirnir hefjast allir kl. 19:15.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024