Grindvíkingar lágu fyrir meisturunum
Slæm hittni kostaði þær gulklæddu
Íslandsmeistarar Snæfells sóttu öruggan sigur í Grindavík í gær, þar sem lokatölur urðu 52-68, gestunum í vil. Leikurinn hófst með nokkru jafnræði en í öðrum leikhluta skildu leiðir. Þá skoruðu Grindvíkingar aðeins sex stig gegn 14 frá Snæfellingum. Á lokasprettinum reyndust sterkir Snæfellingar svo betri og unnu að lokum þægilegan sigur. Grindvíkingar söknuðu Maríu Ben Erlingsdóttur í leiknum en hún er stödd erlendis. Eins var Rachel Tecca ekki 100% heil þar sem hún er að glíma við meiðsli.
Grindvíkingar voru að hitta illa í leiknum, nýting þeirra í tveggja stiga skotum var 32%, en í þriggja stiga skotunum rötuðu aðeins 4 af 25 niður. Það gerir aðeins 16% nýtingu. Þetta var jafnframt lægsta stigaskor Grindvíkinga á tímabilinu til þessa.
Hjá Grindavík var Ásdís Vala Freysdóttir með 11 stig og tók hún 11 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 12 stig og Rachel Tecca skoraði 9 stig og tók 14 fráköst.
Hjá gestunum átti Kristen Denise draumaleik, hún skoraði 32 stig, tók 24 fráköst og stal 6 boltum.