Grindvíkingar komust á beinu brautina
Bæði lið Grindavíkur unnu sína leiki í Lengjudeildum karla og kvenna. Karlaliðið hafði tapað fjórum leikjum í röð, eða frá því að hafa tapað fyrir Þrótti í Vogum fyrir mánuði síðan, en kvennaliðið hafði tapað tveimur síðustu leikjum. Í 2. deild karla vann topplið Njarðvíkinga sigur eftir tvo tapleiki í röð en á sama tíma töpuðu Reynismenn stórt. Víðismenn unnu mikilvægan sigur og halda í vonina að komast upp úr 3. deild en þeir eru í fjórða sæti sem stendur. Að lokum voru miklir markaleikir í 4. deildinni, í C riðli unnu Hafnir stórsigur en RB tapaði enn stærra í B riðli.
Lengjudeild kvenna:
Grindavík - Fjölnir 2:0
Leikur Grindavíkur og Fjölnis var nánast einstefna megnið af leiknum og sigur Grindvíkinga sanngjarn. Það verður að teljast ótrúlegt að mörk Grindvíkinga hafi ekki orðið fleiri en lengi vel voru Fjölniskonur í nauðvörn.
Grindavík er í sjötta sæti með fjórtán stig eftir fjórtán umferðir.
Mörk Grindavíkur: Tinna Hrönn Einarsdóttir (25’ og 86’).
Lengjudeild karla:
Grindavík - Kórdrengir 2:0
Grindvíkingar unnu mikilvægan sigur á Kórdrengjum en eftir afleitt gengi liðsins síðasta mánuð var Grindavík farið að nálgast fallsvæðið ískyggilega, með sigrinum höfðu liðin sætaskipti og Grindavík er nú komið í áttunda sæti Lengjudeildar karla.
Mörk Grindavíkur: Kristófer Páll Viðarsson (10’) og Kairo Asa Jacob Edwards-John (70’).
2. deild karla:
Njarðvík - KFA 3:1
Eftir að hafa tapað sínum fyrsta leik í deildinni í sumar fylgi annar tapleikur en Njarðvíkingar, sem hafa ágætis forskot í deildinni, unnu KFA örugglega um helgina og hafa nú fimm stiga forskot á Þrótt Reykjavík.
Mörk Njarðvíkur: Arnar Helgi Magnússon (32’), Bergþór Ingi Smárason (42’) og Marc McAusland (59’).
Höttur/Huginn - Reynir 5:0
Eftir ágætis gengi að undanförnu, þrjú jafntefli og sigur á toppliði Njarðvíkur, fengu Reynismenn skell þegar þeir léku gegn Hetti/Huginn. Reynir er með tíu stig í næstneðsta sæti 2. deildar og eru fimm stig í næsta liðl.
3. deild karla:
Víðir - KH 1:0
Víðismenn hafa svolítið misstigið sig í síðustu leikjum, tvö jafntefli og eitt tap, en þeir voru komnir í efsta sæti deildarinnar. Meðan Víðir vann sigur á KH töpuðu bæði KFG og Dalvík/Reynir sínum leikjum. Það er allt galopið í toppbaráttu 3. deildar, Víðismenn eru í fjórða sæti með 29 stig en Sindri, KFG og Dalvík/Reynir eru í þremur efstu sætunum, öll með 31 stig.
Mark Víðis: Jóhann Þór Arnarsson (70’)
4. deild B riðill:
KFK - RB 12:0
RB situr í sjötta sæti B riðils en liðið hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum.
4. deild C riðill:
KM - Hafnir 0:9
Hafnir er í fjórða sæti C riðils, aðeins einu stigi á eftir Álftanesi sem er í því þriðja.
Mörk Hafna: Eyþór Atli Aðalsteinsson (7’, 22’ og 51’), Ingimundur Arngrímsson (14’ og 32’), Jón Kristján Harðarson (28’), Ragnar Ingi Sigurðsson (45’) og Kristófer Orri Magnússon (77’ og 82’).