Grindvíkingar komnir á sporið
Rétt eins og hjá Keflavík í gærkvöldi var um burst að ræða í Röstinni í dag þegar Grindavík minnkaði muninn í 2-1 í undanúrslitaseríunni gegn Snæfell. Lokatölur í Röstinni voru 90-71 fyrir heimamenn sem gerðu endanlega út um leikinn snemma í fjórða leikhluta. Þorleifur Ólafsson átti góðan dag í gulu með 20 stig og 5 stoðsendingar en hjá Snæfell var Justin Shouse með 16 stig og 6 stoðsendingar.
Nokkur deyfð var yfir leiknum í upphafi en heimamenn voru þó sprækari og leiddu 22-10 að loknum fyrsta leikhluta. Hólmarar voru ekki að finna taktinn og jafnvel þó þeir fengju nokkuð opin skot vildu þau ekki rétta leið.
Grindvíkingar fóru á kostum í upphafi annars leikhluta og breyttu stöðunni í 30-17. Gestirnir vöknuðu þá af værum blundi og gerðu átta stig í röð en Grindvíkingar hleyptu gestum sínum ekki nærri. Hart var barist og minnstu mátti muna að upp úr syði og til slagsmála kæmi á millum Hlyns Bæringssonar og Jamaal Williams þegar sá síðarnefndi virtist taka nokkuð hraustlega á Hlyn í gólfinu.
Fyrir vikið fékk William tæknivíti og þar með sína fjórðu villu og Adama Darboe fékk einnig tæknivíti fyrir að fara inn á völlinn af varamannabekknum. Allt á suðupunkti og áhorfendur heimtuðu að annar hver maður á vellinum yrði sendur úr húsi en dómarar leiksins voru svellkaldir og létu ekki múgæsinginn ná til sín.
Hlynur engdist um af kvölum eftir hálstakið frá Williams en hann sakaði þó ekki og lék áfram. Staðan í hálfleik var 40-31 Grindavík í vil og Þorleifur Ólafsson kominn með 13 stig hjá Grindavík og hjá Snæfell voru þeir Hlynur Bæringsson og Justin Shouse báðir með 8 stig.
Igor Beljanski meiddist á ökkla í upphafi þriðja leikhluta og lék ekki meira með og Jamaal Williams var á bekknum. Í fjarveru beggja miðherja Grindvíkinga bættu aðrir leikmenn við sig snúningi og náðu upp þeim leik þar sem þeim líður best. Á fullum hraða með skothríð á fullum snúningi sem kaffærði Hólmara. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 63-48 fyrir Grindavík.
Þegar Þorleifur Ólafsson tróð með tilþrifum í upphafi fjórða leikhluta og breytti stöðunni í 65-50 var sigurinn kominn. Allur meðbyrinn var Grindavíkurmegin og leikmenn á borð við Pál Kristinsson og Helga Jónas Guðfinnsson léku við hvern sinn fingur. Þá var Adama Darboe einnig líflegur og stjórnaði leik Grindavíkur oft af miklum hagleik.
Leikur Grindvíkinga var vafalítið sá besti í þessari seríu og með þessu áframhaldi er ekki ósennilegt að þeir tryggi sér oddaleik í Röstinni í næstu viku en þá verða þeir líka að sækja sigur í Stykkishólm á mánudagskvöld. Fjórði leikur liðanna hefst kl. 20:00 í Hólminum og má búast við miklum látum í Fjárhúsinu.
VF-Mynd/ [email protected]– Á efri myndinni fagnar Helgi Jónas Guðfinnsson einu af fjórum þriggja stiga skotum sínum sem fóru niður í dag. Á þeirri neðri kemur Ólafur Ólafsson inn á leikvöllinn fyrir Þorleif bróður sinn sem átti ljómandi góðan dag.