GRINDVÍKINGAR KLAUFAR EN KEFLVÍKINGAR EIGA "BJARGVÆTT"
Grindvíkingar voru klaufar að tapa á heimavelli gegn Eyjamönnum en Keflvíkingar sýndu hins vegar sitt rétta andlit ísíðari hálfleik gegn skagamönnum eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik í Landssímadeildinni í knattspyrnu um síðustu helgi.Grindvíkingar áttu í fullu tré við Íslands- og bikarmeistarana, sérstaklega eftir að gestirnir komust marki yfir þegar Steingrímur Jóhannesson skoraði á 34. mínútu. Grétar Hjartarson jafnaði fyrir heimamenn rétt fyrir leikhlé. Grindvíkingar voru síðan miklu betri framan af síðari hálfleik og voru oft nálægt því að skora. Grétar skoraði mark á 57. mín. en var dæmt af. Seinni hluta seinni hálfleik dofnaði yfir leiknum en síðan kom reiðarslagið tveimur mínútum fyrir leikslok. Þá skoraði Hlynur Stefánsson sigurmark Eyjamanna.Keflvíkingar vissu ekki hvort þeir voru að koma eða fara í fyrri hálfleik á Skaganum og voru tveimur mörkum undir í leikhléi. Kjartan Másson, þjálfari bætti í sóknarleikinn í síðari hálfleik og setti Rút Snorrason og Zoran Ljubicic inná fyrir Hjjört Fjeldsteð og Guðmund Oddsson til að leggja alla áherslu á markaskorun. Það herbragð tókst. Fyrst skoraði Gunnar "túrban" Oddsson með skalla í sínum fjórða leik sem hann fær höfuðhögg í sumar og annar leikurinn í röð sem hann skorar í. Síðan kom "bjargvætturinn" Þórarinn Kristjánsson og skoraði með skemmtilegri bakfallsspyrnu af nokkuð löngu færi 18 mín. fyrir leikslok. "Það er gott að fara upp á Skaga og ná stigi eftir að vera komnir 2:0 undir. Við urðum að taka áhættu og það var ánægjulegt að okkur skyldi takast að jafna. Númer eitt hjá okkur er að losna við falldrauginn og vonandi hefur okkur tekist það þó svo vissulega séu næstu leikir úrslitaleikir fyrir okkur hvað það varðar".Keflvíkingar fá Leiftursmenn í heimsókn á sunnudag en Grindvíkingar þurfa að fara í Vesturbæinn og sækja efsta lið KR-inga heim.