Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Grindvíkingar í slæmri stöðu
Mánudagur 17. mars 2008 kl. 01:05

Grindvíkingar í slæmri stöðu

Bikarmeistarar Grindavíkur máluðu sig út í horn með frammistöðu sinni gegn KR í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express-deildar kvenna í körfuknattleik í kvöld.

Með öruggum sigri, 65-82, í Röstinni í Grindavík eru KR-stúlkur í góðri stöðu fyrir þriðja leik liðanna í DHL-höllinni á miðvikudag en þar geta þær tryggt sér farmiða í úrslitin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


KR hófu leikinn mun betur og voru alltaf skrefi eða tveimur á undan gestgjöfunum. Þær komust í 0-6 með körfum frá Hildi Sigurðardóttur og Candace Futrell, en þær tvær leiku skínandi vel í kvöld.


Grindvíkingar voru hins vegar ekki að finna sig í sóknarleiknum og áttu erfitt með að hitta, jafnvel úr sæmilega opnum skotum.

Eftir fyrsta leikhluta var staðan 12-24 og þó jafnara væri á með liðunum í öðrum leikhluta saxaðist ekkert á forskot KR svo nokkru nam.

Í hálfleik var staðan 30-45 en það næsta sem Grindvíkingar komust KR í seinni hálfleik var 10 stig, 63-73 og 65-75 þegar um 2 mínútur voru eftir af leiknum. Þá settu KR-ingar aftur í gír og unnu sannfærandi og verðskuldaðan sigur.


Tiffany Roberson bar af hjá Grindavík og var sú sem dró vagninn þegar stöllur hennar voru ekki að leika vel og hélt liðinu inni í leiknum lengi vel. Hún skoraði 34 stig og tók 10 fráköst, en framlag hennar sést einna best á því að hún skoraði 15 af 20 2ja stiga körfum Grindvíkinga í öllum leiknum. Petrúnella Skúladóttir kom henni næst mað 13 stig, en aðrir leikmenn léku undir væntingum.


Hjá KR áttu Hildur og Futrell stórleiki, eins og áður sagði, og var hildur sérstaklega erfið sínum gömlu félögum. Hún var með þrennu, 18 stig, 13 fráköst og 11 stoðsendingar auk fjögurra stolinna bolta. Futrell var með 33 stig og 14 fráköst.


Þriðji leikur liðanna verður í Vesturbænum á sunnudag og verða Grindvíkingar að taka sig verulega á ef þær ætla ekki í snemmbúið sumarleyfi frá boltanum.

Tölfræði leiksins

VF-mynd/Þorgils - Hildur Sigurðardóttir í baráttu við Írisi Sverrisdóttur

Myndbrot væntanleg í VefTV Víkurfrétta