Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar i Höllina eftir sigur á Skallagrími
Mánudagur 6. febrúar 2006 kl. 12:09

Grindvíkingar i Höllina eftir sigur á Skallagrími

Það verða Grindvíkingar sem mæta Íslandsmeisturum Keflavíkur í bikarúrslitum karla í körfuknattleik karla þann 18. febrúar nk. en þeir sigruðu Skallagrím í Röstinni í gær, 97-87.

Leikurinn fór fjörlega af stað og var ekki mikill munur á liðunum í fyrsta leikhluta. Jeremiah Johnson fór fyrir heimamönnum og sýndi í leiknum að hann getur tekið stjórnina í heilu leikjunum með því að sækja að körfunum með mikilli áræðni auk þess sem betri 3ja stiga skytta er vandfundin. Hjá Skallagrími var George Byrd bestur, en hann meiddist í fyrri hálfleik og gat lítt beitt sér í þeim seinni.

Það sem kom einna mest á óvart í leiknum var hversu Páll Axel Vilbergsson, fyrirliði Grindvíkinga hélt sér til hlés í stigaskorun, en hann gerði einungis 4 stig í leiknum. Hann vann það hins vegar upp með góðri varnarvinnu og var auk þess að skila boltanum vel af sér í sókninni.

Í öðrum leikhluta tóku heimamenn öll völd á vellinum, en miklu munaði um innkomu Helga Jónasar Guðfinnssonar sem átti stjörnuleik og skoraði 18 stig í leiknum ásamt því að leika glimrandi vörn.

Í hálfleik var staðan 50-35 og hélst forskotið nokkurn veginn í 10 stigum út allan leikinn. Þó fjórir Grindvíkingar væru komnir með 4 villur undir lok leiksins skipti það ekki sköpum því maður kom í manns stað. Pétur Guðmundsson og Þorleifur Ólafsson komu sterkir inn af bekknum og sáu til þess að sigurinn var aldrei í hættu í fjórða leikhluta.

Tölfræði leiksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024