Grindvíkingar í engum vandræðum með KFÍ
Grindvíkingar sigruðu KFÍ örugglega 102-73 í Intersport-deildinni í kvöld. Grindvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu fyrstu níu stig leiksins. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 27-14 og ljóst var frá upphafi að Grindvíkingar komu til leiks til að sigra leikinn.
Annar leikhluti fór af stað eins og sá fyrsti endaði þar sem Grindvíkingar höfðu yfirburði inná vellinum. Darrel Lewis og Páll Axel voru að leika hvað best í fyrri hálfleik. Darrel var með 12 stig í fyrri hálfleik og Páll 8.
Í seinni hálfleik var augljóst hvert leikurinn stefndi, Grindvíkingar sem fyrr, voru með öll völd á vellinum og eftir þriðja leikhluta var staðan þægileg fyrir Grindvíkinga 84-47. Grindvíkingar hvíldu lykilmenn sína í fjórða leikhluta. Gleðiefni fyrir Grindvíkinga var að Helgi Jónas Guðfinnsson spreytti sig í 13 mínútur eftir að hafa glímt við erfið meiðsli í vetur, hann spilaði stutt og setti 5 stig. Sigurinn var aldrei í hættu hjá Grindvíkingum og lauk leiknum 102-73.
Hjá Grindavík voru fimm leikmenn með 10 stig eða meira. Darrel Lewis var stigahæstur með 18 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar. Páll Axel Vilbergsson var að hitta vel og með fína skotnýtingu og endaði með 15 stig og þar af þrjár þriggja stiga. Terrel Taylor var með 16 stig og 9 fráköst, Jeffrey Boschee var með 12 stig og öll úr þriggja stiga körfum. Þá var Ármann Vilbergsson með 10 og Jóhann Ólafsson 9 stig.
Hjá slöku liði KFÍ stóð Joshua Helm uppúr með 43 stig, eða meir en helming stiga KFÍ.
Einar Einarsson, þjálfari Grindvíkinga var nokkuð sáttur í leikslok. Hann var þegar farinn að spá í mikilvægum leik gegn KR á fimmtudag sem er úrslitaleikur fyrir Grindvíkinga um sæti í úrslitum. „Við erum að gíra okkur, tveir sigurleikir í röð sem er met hjá okkur í ár, vonum að það verði þrír í röð eftir KR leikinn“ sagði hann glottandi „Það er vonandi að það sé kominn stígandi í liðið“. Hann taldi að Helga Jónasar hafi verið saknað í undanförnum leikjum „Hann er mikilvægur hlekkur í okkar liði og er ég ánægður með endurkomu hans, hann verður ekkert sparaður á fimmtudag.“
Ekki voru margir áhorfendur á leiknum sem er skrítið miðað við mikilvægi leiksins. Það er vonandi að Grindvíkingar fjölmenni á völlinn á fimmtudag klukkan 19:15 í Röstinni þegar Grindvíkingar mæta KR-ingum í gríðarlega mikilvægum leik sem gæti ráðið úrslitum um hvort Grindvíkingar verði með í úrslitakeppninni eða ekki.