Grindvíkingar í 8-liða úrslit
Grindvíkingar tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins í gærkvöld, er þeir unnu Framara á Laugardalsvelli, 0-2. Grindvíkingar voru betri aðilinn allan leikinn og sigurinn öruggur.Leikurinn fór hægt af stað og fátt markvert gerðist fyrr en á 39. Mínútu þegar Óli Stefán Flóventsson náði góðu skoti, sem Fjalar markvörður sló í þverslánna og inn. Staðan í hálfleik því 0-1 fyrir Grindavík.Grindvíkingar komu mun sókndjarfari og ákveðnari til síðari hálfleiks og áttu nokkuð af góðum færum, sem þeir náðu ekki að nýta fyrr en á 59. mínútu. Sinisha Kekic sendi þá boltann inn í teiginn þar sem Sverrir Þór Sverrisson tók laglega við honum, sneri af sér varnarmann og renndi boltanum í varnarmann Fram og í markið. Mörkin urðu ekki fleiri í leiknum, þrátt fyrir fína tilburði gestanna og tvö dauðafæri hjá Frömurum.Grindvíkingar því komnir áfram í bikarnum, en Framarar fallnir úr keppni. Það kemur síðan í ljós nk. mánudag hverjir andstæðingar Suðurnesjaliðanna verða í 8-liða úrslitum keppninnar.