Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar í 2. sætið
Mánudagur 18. febrúar 2008 kl. 23:11

Grindvíkingar í 2. sætið

Grindvíkingar eru komnir upp í 2. sæti Iceland Express deildar karla í körfuknattleik eftir nauman 89-83 sigur á Fjölni í Röstinni í kvöld. Félagarnir Páll Axel Vilbergsson og Jonathan Griffin gerðu báðir 29 stig í Grindavíkurliðinu í kvöld en hjá Fjölni var Anthony Drejaj atkvæðamestur með 23 stig og 7 stolna bolta. Framan af leik leit allt út fyrir að Grindavík myndi stinga af en Fjölnismenn gáfu sig ekki auðveldlega og létu gula hafa virkilega fyrir stigunum í kvöld. Þar sem Grindavík hefur betur í innbyrðisviðureignum gegn KR eru þeir í 2. sæti með 28 stig og KR í 3. sæti með jafn mörg stig eftir tap gegn ÍR í Seljaskóla.

 

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og komumst heimamenn í 17-10 og allt benti til þess að Grindvíkingar myndu stinga af. Fjölnismenn voru þó ekki af baki dottnir og héldu í við heimamenn og staðan 29-20 eftir upphafsleikhlutann.

 

Kristinn Jónasson kom sterkur inn af bekknum hjá Fjölni en eftir því sem á leið annan leikhluta hrúguðust villurnar inn hjá Kristni sem fékk sína fjórðu villu í 2. leikhluta fyrir mótmæli við dómara. Þorleifur Ólafsson var í villuvandræðum með þrjár villur hjá Grindavík sem leiddi í hálfleik 51-43. Helgi Jónas Guðfinnsson meiddist á hægri hönd í fyrri hálfleik, hann reyndi að hita upp í leikhléi og prufaði að skjóta en það gekk ekki og lék hann ekki meira í leiknum.

 

Fjölnir hélt flugeldasýningu í upphafi síðari hálfleiks og með þremur þriggja stiga körfum í röð tókst þeim að jafna metin 51-51. Anthony Drejaj var fyrirferðamikill hjá Fjölni en af honum dró sökum villuvandræða en töluvert var flautað í kvöld og bæði lið í stökustu villuvandræðum. Þriðji leikhluti einkenndist af mikilli baráttu og nokkrum pirringi leikmanna beggja liða. Staðan var 66-66 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann en Níels Dungal jafnaði metin í 66-66 með flautukörfu úr teignum fyrir Fjölni.

 

Kristinn Jónasson kom síðan sterkur inn af bekknum í fjórða leikhluta og gerði fjögur fyrstu stig Fjölnis í leikhlutanum en mátti sætta sig við stutt stopp inni á leikvellinum þar sem hann fékk fljótlega sína fimmtu villu.

 

Staðan var jöfn 73-73 og um 5 mínútur til leiksloka þegar Páll Axel Vilbergsson gerði þriggja stiga körfu fyrir Grindvíkinga og sú karfa virtist vekja heimamenn af værum blundi. Gulir gengu á lagið og náðu að klára leikinn af nokkru harðfylgi með góðri baráttu á lokasprettinum og lokatölur 89-83 Grindavík í vil.

 

Sigur Grindavíkur í kvöld var sá fimmti í röðinni í deildarkeppninni en hann var fjarri því það besta sem gulir hafa sýnt í vetur. Liðið sem vanalega leikur hraðan og skemmtilegan bolta lét Fjölni draga sig inn í sinn leik og fyrir vikið áttu stóru leikmenn Fjölnis góða spretti. Aðeins sex leikmenn komust á blað hjá Grindavík í kvöld og þar voru þeir Jonathan Griffin og Páll Axel með samtals 58 stig. Næstur þeim var Adama Darboe með 11 stig, 9 stoðsendingar og 7 fráköst. Þorleifur Ólafsson átti fína spretti en leikmenn á borð við Davíð Pál og Jóhann Ólafsson nýttu illa þau tækifæri sem Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur gaf þeim.

 

Nú er komið hlé í deildarkeppninni í Iceland Express deild karla þar sem úrslitaleikir Lýsingarbikarsins fer fram um helgina í Laugardalshöll þar sem Fjölnismenn mæta Snæfell í karlaflokki og Grindavíkurkonur mæta Íslands- og bikarmeisturum Hauka.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Mynd/ [email protected]Páll Axel sækir að körfu Fjölnismanna í Röstinni í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024