Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar hungraðir í bikartitil
Hvor félaganna mun fagna í leikslok á morgun?
Föstudagur 21. febrúar 2014 kl. 08:01

Grindvíkingar hungraðir í bikartitil

- Hafa tapað síðustu þremur leikjum í Höllinni

Grindvíkingar eru að fara í fjórða bikarúrslitaleik sinn í karlaflokki á síðustu fimm árum. Að þessu sinni eru ÍR-ingar andstæðingarnir. Síðustu þrír úrslitaleikir hafa endað með tapi Grindvíkinga. Eftir að hafa landað tveimur Íslandsmeistaratitlum undanfarin tvö ár eru Grindvíkingar orðnir hungraðir í fleiri titla. Þá sérstaklega þennan tiltekna bikar.

„Við áttum ekki góðan dag í Höllinni í fyrra en það er frábært að fá tækifæri ári seinna. Við erum fullir tilhlökkunar og ætlum okkur að fara af fullum þunga í leikinn,“ segir Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindvíkinga.

Þrátt fyrir að Grindvíkingar séu taldir sigurstranglegir, enda ofar í deildinni eins og stendur, þá segir Sverrir að það eigi ekki að hafa mikil áhrif á liðið. „Það eru líklega flestir aðrir en Grindvíkingar sem vonast eftir sigri ÍR. Það er bara gaman að hafa smá mótlæti til þess að hvetja okkur til þess að klára verkefnið,“ segir Sverrir Þór. „Þetta er magnaður viðburður fyrir þessi bæjarfélög sem komast í úrslitin. Ég heyri það á Grindvíkingum að það er mikið hungur í að landa þessum bikar. Við fáum til þess tækifæri á laugardaginn og það er okkar að nýta það.“

Sverrir segir að sínir menn séu í góðu formi, líkamlega sem andlega. Stuðningsmenn og reyndir heimamenn í liðinu eru orðnir langeygir eftir bikartitli enda frekar súrar minningar í hugum Grindvíkinga eftir ófarir síðustu úrslitaleikja. „Við erum í þessu til þess að vinna. Við náðum ekki að klára þetta í fyrra og ætlum að mæta eins og menn og sýna okkar besta leik,“ segir Sverrir sem hefur verið tíður gestur í bikarúrslitum undanfarin ár en hann fór sem þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur árið 2012 og fagnaði þar sigri. Sem leikmaður hefur hann þrisvar spilað til úrslita og tvisvar fagnað sigri. Sem þjálfari Grindvíkinga vill Sverrir sjálfsagt bæta upp fyrir tapið gegn Stjörnunni í fyrra en þar laut hann í lægra haldi gegn Njarðvíkingnum Teiti Örlygssyni og Stjörnumönnum hans. Á morgun situr annar Njarðvíkingur á bekk andstæðinganna, væntanlega í nýpressuðum jakkafötum.

Hafa unnið Grindvíkinga í vetur

Njarðvíkingurinn Örvar Þór Kristjánsson er þjálfari ÍR-inga. Hann hefur líka reynslu af bikarúrslitum. Fyrst sem leikmaður með Njarðvík árið 1999 og síðar sem aðstoðarþjálfari liðsins árið 2005. Í bæði skiptin var Örvar í sigurliðinu. ÍR-ingar stefna að sjálfsögðu á sigur í leiknum á laugardaginn. „Við förum í leikinn með því hugarfari að vinna. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum ólíklegri en við höfum unnið Grindvíkinga í vetur og teljum okkur geta gert það aftur,“ segir Örvar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er gömul klisja og ný að dagsformið geti skipt sköpum. Örvar telur svo vera. „Við Sverrir getum spáð í lið hvors annars endalaust og prófað að brydda upp á nýjungum í leiknum. Þetta snýst þó ekki endilega um það, heldur hvernig menn mæta tilbúnir til leiks. Spennustigið þarf að vera rétt og stundum snýst þetta hreinlega um heppni. Bæði lið verða klár og ég vona að þetta verði góður leikur og góð auglýsing fyrir körfuboltann,“ segir Örvar sem er bjartsýnn á sigur í leiknum. „Það er um að gera að njóta dagsins en það eru ekki allir sem hafa færi á að spila svona leik. Að fara í svona leik er draumur hvers leikmanns og þjálfara. Ég er gríðarlega spenntur og hlakka mikið til.“

Um andstæðing sinn hefur Örvar ekkert nema gott að segja. „Sverrir er toppmaður og það verður gaman að glíma við hann. Við erum góðir vinir og lékum saman hérna í gamla daga. Hann er að gera góða hluti í Grindavík og var ekki valinn þjálfari ársins að ástæðulausu í fyrra.“ Sverrir ber félaga sínum einnig góða söguna. Hann telur að Örvar hafi snúið við gengi ÍR-inga eftir áramót. „Þeir eru verðugir andstæðingar og við þurfum að hitta á góðan leik til þess að vinna þá.“ Nú er bara spurning hvor vinanna fagnar sigri á laugardag en leikurinn hefst klukkan 16:00 á morgun og fer fram í beinni útsendingu á RÚV.