Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar heppnir að ná stigi gegn botnliðinu
Aron Dagur Birnuson var besti maður Grindvíkinga í gær og varði oft frábærlega. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 10. júlí 2021 kl. 10:29

Grindvíkingar heppnir að ná stigi gegn botnliðinu

Grindavík mætti Víkingi Ólafsvík, botnliði Lengjudeildar karla, í Ólafsvík í gær. Grindavík, sem situr í þriðja sæti deildarinnar, jafnaði leikinn í uppbótartíma og missti af gullnu tækifæri til að nálgast ÍBV í næstefsta sæti en Eyjamenn töpuðu á sama tíma fyrir Gróttu.

Það voru Grindvíkingar sem komust yfir með marki úr vítaspyrnu á 33. mínútu. Sigurður Bjartur Hallsson tók spyrnuna og skoraði úr henni tíunda mark sitt í deildinni í sumar. Vítaspyrnudómurinn þótti nokkuð vafasamur og fékk Guðjón Þórðarson, þjálfari Víkings, að líta gula spjaldið fyrir mótmæli í kjölfar hans.

Grindavík, sem leiddi í hálfleik, fékk dæmda á sig vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik sem Aron Dagur Birnuson, markvörður Grindvíkinga, gerði sér lítið fyrir og varði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aron Dagur átti frábæran leik í marki Grindavíkur og hélt Grindavíkurliðinu inn í leiknum með góðri frammistöðu. Hann bjargaði nokkrum sinnum mjög vel en þegar tíu mínútur voru til leiksloka átti hann ekki svar við góðum skalla Víkinga, stöngin inn eftir fyrirgjöf úr aukaspyrnu rétt utan teigs og leikurinn orðinn jafn, 1:1 (80').

Víkingar virtust ætla að klára leikinn á 88. mínútu þegar sóknarmaður þeirra komst einn gegn Aroni og kom heimamönnum í 2:1.

Grindvíkingar voru ekki reiðubúnir að kyngja tapi og Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari þeirra, gerði tvöfalda skiptingu. Við að fá óþreytta fætur inn á tvíefldust Grindvíkingar á lokamínútunum, sóttu hornspyrnu þegar þrjár mínútur voru liðnar af uppbótartíma. Fyrirliðinn Sigurjón Rúnarsson skallaði boltann af harðfylgi í net Ólafsvíkinga og tryggði Grindavík eitt stig.

Grindavík situr í þriðja sæti með nítján stig þegar deildin er hálfnuð, þremur stigum á eftir ÍBV sem er í öðru sæti. Fram er langefst í deildinni með 31 stig og hefur aðeins gert eitt jafntefli en unnið tíu leiki.