Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar héldu út tveimur færri
Oddur Ingi gerði vel í aðdraganda marksins en var svo rekinn af velli í seinni hálfleik. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 22. ágúst 2020 kl. 16:01

Grindvíkingar héldu út tveimur færri

Grindvíkingar unnu ótrúlegan sigur á Þór frá Akureyri í Lengjudeild karla í knattspyrnu í dag. Grindvíkingar misstu tvo menn af velli en skoruðu manni færri og héldu svo út umsátur Þórsara um teig Grindavíkur.

Hörkuleikur

Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað, mikil harka var einkennandi fyrir hann og á 10. mínútu var Gunnar Þoirsteinsson, fyrirliði Grindvíkinga, rekinn af velli þegar hann missti boltann klaufalega og braut í kjölfarið af sér í öftustu línu.

Fátt markvert gerðist nema leikmenn brutu hver á öðrum og einhver spjöld fóru á loft. Það var svo eftir rúmlega hálftíma leik að Alexander Veigar Þórarinsson fékk góða sendingu frá Oddi Inga Bjarnasyni sem skeiðaði upp völlinn og kom boltanum fyrir. Það var Alexander einn og óvaldaður og afgreiddi hann í netið. 1:0 fyrir heimamenn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þórsarar gefa í

Eftir að hafa lent undir settu Þórsarar svolitla pressu á Grindvíkinga, áttu m.a. skot í þverslánna, en heimamenn héldu út og fóru inn í hálfleikinn marki yfir.

Seinni hálfleikur var rétt byrjaður þegar Oddur Ingi braut á markverði Þórs og fékk að líta annað gula spjald sitt og þar með rautt (51'). Grindvíkingar voru því orðnir tveimur færri og nærri 40 mínútur til leiksloka.

Umsátur um vítateig Grindavíkur

Það sem eftir lifði leiks má segja að boltinn hafi varla farið af vallarhelmingi Grindvíkinga, stíf pressa Þórsara þyngdist stöðugt en leikmenn Grindavíkur fórnuðu sér hetjulega í hvert skot, hverja tæklingu og þeir náðu á ótrúlegan hátt að stöðva allar atrennur Þórs.

Í uppbótartíma lá sókn Þórsara á marki Grindvíkinga og áttu þeir m.a. skot í stöng en þeir gulklæddu lokuðu markinu algerlega með því að gefa allt sem þeir áttu í leikinn. Gríðarlega góð barátta í hörðum og erfiðum heimaleik skilar því Grindvíkingum þremur stigium og þeir vinna annan leikinn sinn í röð. Með sigrinum eru þeir komnir upp að hlið Þórs með sautján stig en einu marki lakara markahlutfall.