Grindvíkingar gátu ekki leynt vonbrigðum sínum
Grindvíkingar tóku á móti Þór Akureyri í kvöld í tólftu umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu. Grindvíkingar misstu af mikilvægum stigum í toppbaráttunni með svekkjandi jafntefli eftir að hafa lent tveimur mörkum undir þvert gegn gangi leiksins.
Grindvíkingar voru nánast einráðir á vellinum framan af fyrri hálfleiks og pressuðu stíft á Þórsara. Þeir áttu m.a. skot í stöng en inn vildi boltinn ekki. Það var því þvert á gang leiksins að Þór skoraði fyrsta markið (29') og má hreinlega segja að markið hafi verið óhapp.
Eftir aukaspyrnu áttu Þórsarar fyrirgjöf sem Aron Dagur, markvörður Grindavíkur, greip en lenti í samstuði við Sigurð Bjart Hallsson, samherja sinn, og hrökk boltinn úr höndunum á honum. Eftir klafs náðu Þórsarar að koma boltanum inn fyrir línu og staðan 0:1.
Þannig var staðan í hálfleik en Grindvíkingar mættu orkumiklir í síðari hálfleik og ætluðu sér augljóslega að jafna leikinn sem fyrst. Hins vegar voru það Þórsarar sem náðu að tvöfalda forystuna á 53. mínútu og kom markið eiginlega upp úr þurru. Þórsarar unnu boltann á miðjunni, brunuðu upp og skoruðu. Þór komið í tveggja marka forystu en eiginlega ekki búnir að skapa nein hættuleg færi.
Grindvíkingar efldust bara við mótlætið og voru nálægt því að minnka muninn örfáum mínútum síðar þegar hættuleg fyrirgjöf úr aukaspyrnu barst inn í markteig Þórs en aðeins góð markvarsla markvarðar þeirra kom í veg fyrir mark.
Grindavík sótti og sótti og það skilaði loks árangri á 60. mínútu þegar góður skalli Arons Jóhannssonar rataði rétta leið og fann netmöskvana.
Sókn Grindavíkur hélt áfram og menn gáfu allt sem þeir áttu í leikinn. Sigurður Bjartur var búinn að vera sívinnandi í leiknum og er ótrulegt að sjá hvað þessi drengur leggur sig allan fram í leikina. Sigurður Bjartur uppskar eftir alla þá vinnu og jafnaði leikinn þegar hann fékk sendingu í teignum og skot hans breytti um stefnu af varnarmanni en í markið fór hann. Staðan orðin 2:2 og um stundarfjórðungur eftir.
Grindvíkingar héldu áfram að pressa stíft og sækja á Þór og ef einhver sanngirni væri í fótbolta hefðu þeir unnið leikinn en fleiri urðu mörkin ekki og svekkjandi jafntefli niðurstaðan.
Grindavík situr áfram í fjórða sæti deildarinnar en ÍBV, sem situr í öðru sæti, tapaði sínum leik í gær og því minnkaði munurinn í þrjú stig – en með sigri væri Grindavík aðeins einu stigi á eftir þeim.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Grindavíkurvelli í kvöld má sjá myndasafn úr leiknum neðar á síðunni.