Grindvíkingar gagnrýna dómarann harkalega
Grindvíkingar eru vægast sagt ósáttir með framgöngu Þorvalds Árnasonar, dómara í leik Fjölnis og Grindavíkur í gær. Leikurinn fór 3-2 fyrir Fjölni þar sem heimamenn fengu víti á silfurfati undir lok leiksins og stálu sigrinum. Grindavík hafði komist tvisvar yfir með mörkum frá Gilles Ondo og Sveinbirni Jónassyni. Ingvar Guðjónsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Grindavíkur, var mjög ósáttur með frammistöðu dómarans.
„Hann sleppir tveimur alveg augljósum vítum sem við áttum að fá og við erum mjög ósáttir. Maður veltir auðvitað fyrir sér hvort að hann hafi farið í leikinn af fullum heilindum því hann dæmir á okkur vítaspyrnu sem aldrei er vítaspyrna. Þetta er ungur dómari og hafði greinilega ekki kjark til að dæma rétt,“ sagði Ingvar sem segir gagnrýni á dómara nauðsynlega.
„Dómarar eiga ekki að vera yfir gagnrýni hafnir. Leikmenn liðsins eru teknir fyrir í sjónvarpsþáttum í hverri viku og gagnrýndir fyrir sína frammistöðu. Þegar dómarar standa sig illa þá eiga þeir gagnrýni skilið. Dómarinn stóð engan veginn í lappirnar í þessum leik og því fór sem fór.“
Þjálfarinn sá rautt
Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindavíkur, fékk að líta rauða spjaldið eftir leikinn í gær þegar, en hann átti ýmislegt vantalað við dómara leiksins. Ingvar skilur hins vegar framgöngu þjálfarans. „Ég veit nú ekki hvað hann sagði en fótbolti er tilfinningaleikur. Menn eru oft æstir þegar þeim finnst á þeim brotið og bregðast við. Þetta er barnið hans og því bregst hann svona við. Dómarar eru oft frekar spjaldaglaðir þegar þeir fá gagnrýni eftir leiki.“
Næsti leikur Grindavíkur er gegn Val á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda, en Hlíðarendapiltar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni gegn Keflavík í gærkvöld. Bæði lið munu því selja sig dýrt næstkomandi mánudag en leikurinn hefst kl. 20:00.
VF-MYND/Hilmar Bragi: Gilles Ondo var á skotskónum í gær og skoraði annað mark sitt á tímabilinu.