Grindvíkingar gáfust ekki upp í Garðabæ
Grindvíkingar sýndu að þeir eru langt frá því að vera búnir að kasta inn handklæðinu í botnbaráttunni í Pepsi-deildinni þegar þeir unnu Stjörnuna 4-2 á útivelli í kvöld. Grindvíkingar voru tveimur mörkum undir í byrjun síðari hálfleiks en þá hófu þeir magnaða endurkomu sína sem skilaði fjórum mörkum á tæpum hálftíma.
Stjörnumenn voru talsvert sterkari í fyrri hálfleik og uppskáru mark þegar Garðar Jóhannsson skallaði fyrirgjöf Kennie Chopart í netið.
Garðbæingar hefðu getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleiknum en Mark Doninger bætti því öðru við í upphafi síðari hálfleiks með fínu skoti úr vítateigsboganum, fimmta markið í fjórum leikjum hjá Englendingnum síðan hann kom frá ÍA.
Á þessum tímapunkti benti ekkert til annars en að Stjörnumenn myndu fara með sigur af hólmi en svo fór alls ekki. Stjörnumenn slökuðu á og virtust vera komnir með hugann við bikarúrslitaleikinn um næstu helgi á meðan Grindvíkingar settu í gírinn, fóru að berjast mun meira og sækja af krafti.
Ian Williamsson minnkaði fljótlega muninn eftir klafs í teignum og Tryggvi Sveinn Bjarnason skoraði síðan sjálfsmark eftir fasta fyrirgjöf frá Pape Mamadou Faye sem reyndist Stjörnumönnum erfiður í kvöld.
Pape kom Grindvíkingum yfir eftir góða stungusendingu frá varamanninum Alex Frey Hilmarssyni og hinn ungi Alex lagði einnig upp fjórða mark Grindvíkinga skömmu síðar þegar hann skallaði boltann niður á Tomi Ameobi sem skoraði af stuttu færi.
Þar vildu Stjörnumenn meina að Alex hefði brotið á Jóhanni Laxdal en Örvar Sær Gíslason sá ekkert athugavert þar frekar en nokkrum mínútum áður þegar Daníel Laxdal féll í kapphlaupi við Björn Berg Bryde. Þar virtist Daníel vera að sleppa í gegn þegar hann féll við en Örvar Sær dæmdi ekkert eftir að hafa horft lengi á aðstoðarmann sinn Áskel Þór Gíslason.
Halldór Orri Björnsson minnkaði muninn með skoti beint úr aukaspyrnu og Stjörnumenn sóttu stíft undir lokin en Grindvíkingar fórnuðu sér fyrir öll skot og uppskáru sinn annan sigur í sumar.
Þar með eru Grindvíkingar einungis þremur stigum á eftir Fram en liðið mætir Selfyssingum í miklum fallbaráttuslag næstkomandi mánudag. Stjörnumenn eru aftur á móti í fimmta sætinu og fer með tvo tapleiki á bakinu í bikarúrslitaleikinn gegn KR um næstu helgi.
Frétt frá fótbolta.net.