Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar fengu fimm rauð spjöld en þrjú stig
Sunnudagur 8. júní 2008 kl. 21:33

Grindvíkingar fengu fimm rauð spjöld en þrjú stig

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar lögðu Fram 0-1 á Laugardalsvellinum í Landsbankadeild karla í dag. Leikurinn var í meira lagi sögulegur í ljósi þess að Garðar Örn Hinriksson gaf þremur leikmönnum Grindavíkur rauða spjaldið og einnig þjálfara og liðsstjóra eftir leik. Scott Ramsey skoraði eina mark leiksins beint úr hornspyrnu á 57. mínútu og tryggði þar með Grindvíkingum annan sigurinn í sumar.

Leikur Fram og Grindavíkur fór rólega af stað og fyrsta alvöru færi leiksins leit ekki dagsins ljós fyrr en 25 minútu. Scott Ramsey átti aukaspyrnu fyrir Grindavík en Ramsey setti boltann framhjá af 25 metra færi. Meira líf fór að færast í leikinn eftir þetta og fékk Frammarinn Ívar Björnsson úrvalsfæri til að koma fram yfir en hann hitti boltann illa eftir að Paul McShane hafði sent boltann fyrir markið.

Liðin skiptust á að sækja eftir þetta en Grindvíkingar gerðu harða atlögu að marki Fram undir lok fyrri hálfleiks. Andri Steinn Birgisson fékk sannkallað dauðafæri á 39. mínútu þegar hann fékk opið skallafæri á fjærstönginni eftir að hornspyrnu. Andri hitti boltann hins vegar illa og boltinn fór aftur fyrir endamörk. Fram átti síðasta orðið en skot frá Paul McShane fór rétt framhjá markinu. Staðan var því markalaus og nokkuð sanngjörn þegar Garðar Örn Hinriksson flautaði til hálfleiks.

Það var mun meira líf í seinni hálfleik en þeim fyrri. Á 55. mínútu fengu Grindvíkingar víti eftir að brotið var á Thomasz Stopla innan teigs. Andri Steinn Birgisson steig á punktinn en Hannes Halldórsson í marki Fram varði glæsilega. Upp úr vítinu fengu Grindvíkingar hornspyrnu en úr henni skoraði Scott Ramsey, beint úr hornspyrnunni en boltinn sigldi framhjá varnarmönnum Fram og hafnaði í fjærhorninu.

Í næstu sókn dæmdi Garðar Örn víti hinum megin á vellinum eftir að Marinko Skaricic hafði brotið á Ívari Björnssyni innan teigs. Grindvíkingar voru æfir yfir dómnum og fór svo að lokum að Skaricic hlaut tvö gul spjöld fyrir mótmæli en Scott Ramsey og Zoran Stamenic fengu einnig að líta gula spjaldið. Fyrrum Grindvíkingurinn, Paul McShane, fór á vítapunktinn en lét Zankarlo Simunic í marki Grindavíkur verja frá sér.

Grindvíkingar færðu sig aftar á völlinn við rauða spjaldið og reyndu að halda fengnum hlut auk þess að nota skyndisóknir. Litlu munaði að Stopla gulltryggði þeim gulu sigurinn eftir að hann hafði prjónað sig í gegnum vörnina hjá Fram en Hannes varði frá honum úr þröngu færi. Sóknarþungi Framara hélt áfram að pressa sig upp að marki Grindavíkur og fengu sannkallað dauðafæri þegar Ívar Björnsson setti boltann framhjá úr eftir hornspyrnu.

Enn fækkaði Grindvíkingum á vellinum á 86. mínútu þegar Stamenic brau á Heiðari Júlíussyni og hlaut því sitt annað gula spjald. Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Scott Ramsey að líta rauða spjaldið fyrir leikaraskap en Ramsey var allt annað en sáttur með dóminn. Þremur leikmönnum færri tókst Grindvíkingum að halda fengnum hlut en hurð skall nærri hælum í uppbótartíma þegar Hjálmar Þórarinsson átti skalla í slánna.

Þrjú góð stig hjá Grindvíkingum á Laugardalsvellinum í dag en þau voru dýru verði keypt enda verða þrír leikmenn í banni í næsta leik sem er á móti Keflavík á Grindavíkurvelli eftir viku. Grindvíkingar eru með sigrinum komnir upp úr fallsæti í það 10. og héldu jafnframt hreinu í fyrsta sinn í deildinni í sumar.


Byrjunarlið Fram:

Hannes Þór Haldórsson (M), Daði Guðmundsson, Óðinn Árnason, Auðun Helgason, Samuel Lee Tillen, Halldór Hermann Jónsson, Ingvar Þór Ólason, Heiðar Geir Júlíusson, Paul McShane, Hjálmar Þórarinsson, Ívar Björnsson.

Byrjunarlið Grindavík:

Zankarlo Simunic (M); Michael J. Jónsson, Zoran Stamenic, Marinko Skaricic, Jósef Kristinn Jósefsson, Eysteinn Húni Hauksson (F), Páll Guðmundsson, Andri Steinn Birgisson, Scott Ramsay, Tomasz Stolpa, Alexander Veigar Þórarinsson.

VF/MYNDIR: [email protected]