Grindvíkingar fengu á sig jöfnunarmark úr víti í uppbótartíma – Keflvíkingar enn án stiga
Grindavík tók á móti ÍR í gær í Lengjudeild karla í knattspyrnu en þetta var fyrsti heimaleikur Grindvíkinga á Stakkavíkurvelli í Safamýri. Það voru heimamenn sem komust yfir snemma í leiknum en misstu hann niður í jafntefli skömmu áður en blásið var til leiksloka. Á sama tíma tapaði Keflavík öðrum leiknum í röð gegn Gróttu á Seltjarnarnesi.
Víðismenn léku sinn fyrsta heimaleik í 3. deild karla í ár og töpuðu fyrir Kára sem er efst eftir tvær umferðir.
Grindavík - ÍR 1:1
Grindvíkingar áttu í mestu vandræðum með baráttuglaða ÍR-inga sem hafa komið á óvart í byrjun móts. ÍR var meira með boltann í leiknum en vörn Grindvíkinga var vel skipulögð og ÍR-ingar sköpuðu sér fá færi. Grindvíkingar voru hins vegar mun líklegri þegar þeir sóttu hratt og þeir komust yfir á 10. mínútu með skallamarki Kwame Quee eftir góða fyrirgjöf fyrirliðans Einars Karls Ingvarssonar.
Grindvíkingar náðu að setja aukna pressu á gestina síðustu mínútur fyrri hálfleiks en þeim tókst ekki að klára með marki. Þeir hefðu þegið eitt mark í viðbót til að losa smá pressu á leikmönnum enda óþægilegt að verjast lengi með bara eitt mark.
Í seinni hálfleik (59’) gerði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari Grindavíkur, þrefalda skiptingu og með sinni fyrstu snertingu skoraði Hrannar Ingi Magnússon fyrir Grindavík. Markið var hins vegar dæmt af þar sem brotið var á varnarmanni ÍR í aðdraganda þess.
Þegar skammt var til leiksloka fékk Matevs Jalloh sæmilegt færi í þröngri stöðu en hitti boltann illa og skotið langt framhjá.
Það var svo komið í uppbótartíma þegar ÍR sótti inn í teig Grindavíkur. Boltinn fór í hönd Dennis Niebals Moreno og vítaspyrna dæmd sem ÍR jafnaði úr (90’+2). Svekkjandi niðurstaða fyrir Grindvíkinga.
Leikurinn var ekki mikið fyrir augað en blautur völlurinn var erfiður við að eiga. Á meðan ÍR-ingar börðust vel virkuðu Grindvíkingar óöruggir og frekar andlausir í sínum aðgerðum en sennilegast eiga þeir eftir að ná að slípa liðið betur saman enda hefur undirbúningstímabilið hjá þeim verið ódæmigert vegna aðstæðna og ótraustu aðgengi að æfingaaðstöðu.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Stakkavíkurvelli í Safamýri og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á síðunni.
Grótta - Keflavík 1:0
Keflvíkingar fóru enga frægðarför til Seltjarnarness þar sem þeir mættu Gróttumönnum við sömu aðstæður og voru í Safamýri.
Keflvíkingar áttu erfitt með að brjóta vörn Gróttu á bak aftur en eftir um hálftíma leik skoraði Sami Kamel eftir aukaspyrnu af löngu færi en Nacho Heras virðist hafa snert boltann og rangstaða dæmd.
Skömmu síðar náði Grótta góðri sókn, góð stungusending inn fyrir vörnina hjá Keflavík þar sem Tómas Orri Róbertsson var einn á auðum sjó og Ásgeir Orri Magnússon einn til varnar. Ásgeir Orri kom engum vörnum við og Tómas Orri skoraði örugglega (38’).
Seinni hálfleikur fór af stað og bæði lið fengu ágætis færi í upphafi hans. Keflavík var svo að ná góðum tökum á leiknum þegar þeir urðu fyrir því áfalli að Sindra Snæ Magnússyni var sýnt gula spjaldið öðru sinni og því vikið af velli. Keflvíkingar marki undir og manni færri.
Grótta þétti vörnina og hún hélt út leikinn þótt litlu hefði mátt muna í blálokin en þá átti Óliver Andri Einarsson skot sem hafnaði í slánni og Gróttumenn sluppu með skrekkinn.
Lengra komust Keflvíkingar ekki og deila botnsætinu með Leikni, stigalausir eftir tvær umferðir.
Víðir - Kári 0:2
Fyrri hálfleikur var markalaus en undir lok hans misstu Víðismenn Harald Smára Ingason af velli með rautt spjald (42’).
Þetta nýttu Káramenn vel og skoruðu tvívegis í þeim seinni (77’ og 85’). Víðismenn náðu ekki að svara fyrir sig og leikurinn endaði 0:2. Víðir er í áttunda sæti með eitt stig.