Grindvíkingar farnir til Eyja - veðrið til vandræða
Leikmannahópur Grindavíkur heldur til Vestmannaeyja í kvöld en liðið á leik gegn ÍBV í lokaumferð Pepsi-deildarinnar á laugardag. Veðurspáin fyrir morgundaginn er mjög slæm og ákveðið að taka enga áhættu en knattspyrnusíðan fótbolti.net greinir frá þessu.
„Við förum í skemmtisiglingu með flóabátnum Baldri klukkan tíu í kvöld. Þetta er gert í samráði við KSÍ sem sendir dómarana með í sama bát," segir Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, en hann þekkir Vestmannaeyjar betur en flestir aðrir.
„Við verðum á fyrsta farrými og dómararnir á öðru svo að engin samskipti eigi sér stað," segir Þorsteinn léttur.
Grindavíkurliðið mun á morgun æfa í nýja knattspyrnuhúsinu í Vestmannaeyjum og á laugardag er svo komið að leiknum gríðarlega mikilvæga. Grindavík er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og ljóst að ef liðið tapar þá er það fallið.
Ef liðið gerir jafntefli þarf það að treysta á úrslit úr öðrum leikjum en með sigri tryggir það sæti sitt í deildinni.
„Þetta er bara eins og bikarúrslitaleikur í okkar huga. ÍBV er að berjast um sæti í Evrópukeppni svo þetta er leikur upp á 30-40 milljónir," segir Þorsteinn.