Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar fallnir úr úrslitakeppninni
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, fylgdist með Grindvíkingum tryggja sér oddaleikinnn gegn Stjörnunni ásamt Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkur.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 28. maí 2021 kl. 20:12

Grindvíkingar fallnir úr úrslitakeppninni

Stjarnan var númeri of stór

Í kvöld fór fram oddaleikur Stjörnunnar og Grindavíkur í átta liða úrslitum Domino's-deildar karla. Leikið var í Garðabæ en Grindvíkingar knúðu fram oddaleik með góðri frammistöðu á heimavelli síðasta þriðjudag. Garðbæingar reyndust of stór biti fyrir Grindvíkinga til að kyngja í kvöld og þeir lögðu línurnar strax í fyrsta leikhluta, lokatölur 104:72 fyrir Stjörnunni.

Grindvíkingar fóru illa af stað og Garðbæingar náðu tólf stiga forystu í upphafi fyrsta leikhluta (14:2). Stjörnumenn litu aldrei til baka eftir það og höfðu náð fimmtán stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta, staðan 31:15.

Báðum liðum gekk illa að setja boltann niður í öðrum leikhluta og gerðu Stjörnumenn átján stig gegn aðeins fimmtán stigum Grindavíkur, staðan því 49:30 í hálfleik fyrir heimamenn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Garðbæingar hreinlega völtuðu yfir gestina í þriðja leikhluta, juku forystuna jafnt og þétt og höfðu náð 35 stiga yfirburðaforystu að honum loknum (82:27). Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Stjörnuna og lauk leiknum með 32 stiga sigri þeirra.

Grindvíkingar eru því fallnir úr keppni þetta árið og komnir í frí. Amenhotep Kazembe Abif var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld en hann skoraði fimmtán stig, Dagur Kár Jónsson og Kristinn Pálsson voru með fjórtán stig hvor og þeir Ólafur Ólafsson og Joonas Jarvelaine gerðu sín hvor tíu stigin.