Grindvíkingar fallnir úr úrslitakeppninni
Stjarnan var númeri of stór
Í kvöld fór fram oddaleikur Stjörnunnar og Grindavíkur í átta liða úrslitum Domino's-deildar karla. Leikið var í Garðabæ en Grindvíkingar knúðu fram oddaleik með góðri frammistöðu á heimavelli síðasta þriðjudag. Garðbæingar reyndust of stór biti fyrir Grindvíkinga til að kyngja í kvöld og þeir lögðu línurnar strax í fyrsta leikhluta, lokatölur 104:72 fyrir Stjörnunni.
Grindvíkingar fóru illa af stað og Garðbæingar náðu tólf stiga forystu í upphafi fyrsta leikhluta (14:2). Stjörnumenn litu aldrei til baka eftir það og höfðu náð fimmtán stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta, staðan 31:15.
Báðum liðum gekk illa að setja boltann niður í öðrum leikhluta og gerðu Stjörnumenn átján stig gegn aðeins fimmtán stigum Grindavíkur, staðan því 49:30 í hálfleik fyrir heimamenn.
Garðbæingar hreinlega völtuðu yfir gestina í þriðja leikhluta, juku forystuna jafnt og þétt og höfðu náð 35 stiga yfirburðaforystu að honum loknum (82:27). Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Stjörnuna og lauk leiknum með 32 stiga sigri þeirra.
Grindvíkingar eru því fallnir úr keppni þetta árið og komnir í frí. Amenhotep Kazembe Abif var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld en hann skoraði fimmtán stig, Dagur Kár Jónsson og Kristinn Pálsson voru með fjórtán stig hvor og þeir Ólafur Ólafsson og Joonas Jarvelaine gerðu sín hvor tíu stigin.