Grindvíkingar færast nær fyrstu deild
Það er ekki hægt að segja að fjölmennt hafi verið í rigningunni sem var grenjandi og lét finna fyrir sér í Grindavíkinni í gær. Einungis 245 áhorfendur mættu til að fylgjast með aftöku Grindavíkur. Menn renndu sér vel í blautu grasinu og fyrsta gula spjaldið fyrir slíka tæklingu leit dagsins ljós strax í upphafi leiks. Fyrsta mark leiksins kom svo á 11. mínútu en það skoraði Arnar Már Björgvinsson fyrir gestina, vel klárað hjá drengnum. Blikarnir réðu gjörsamlega ferðinni í bleytunni suður með sjó og annað mark þeirra mætti á 25.mínútu en þá fékk Kristinn Jónsson boltann í teignum og hamraði knöttinn upp í þaknetið. Grænir voru ekki hættir því þriðja mark þeirra kom á 32.mínútu eftir klaufaleg mistök hjá heimamönnum á miðjunni. Tómas Óli Garðarsson fékk sendingu inn fyrir vörnina og kláraði vel. Heimamenn voru greinilega mjög ringlaðir yfir öllu sem var að gerast og voru enn að snúa sér í hringi þegar Rafn Andri Haraldsson skoraði með góðum skalla á 34.mínútu. Þannig stóðu leikar í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn byrjaði ágætlega fyrir heimamenn sem þurftu á kraftaverki að halda. Scott Ramsay, sem hefur verið inn og út úr liðinu hjá Guðjóni Þórðarsyni í sumar, átti frábæra sendingu sem Óli Baldur Bjarnson skallaði inn. Heimamenn bitu aðeins frá sér á þessum kafla en það var ekki nóg. Þeir fengu sín færi til að minnka muninn enn frekar en það næsta mark kom ekki fyrr en á 92. mínútu þegar varamaðurinn Hafþór Ægir Vilhjálmsson skallaði boltann í netið og lokatölur þar með 2-4.
Grindvíkingar skrapa botn deildarinnar með 10 stig og það lítur því miður út fyrir að þeir leiki í næst efstu deild að ári. Blikar komast með sigrinum í 26 stig í 6.sæti deildarinnar.