Grindvíkingar fá liðsstyrk - óvissa með McShane
Grindvíkingar hafa fengið markmann að nafni Boban Savic til liðs við sig fyrir átökin í sumar. Savic er 26 ára gamall og æfði með yngri flokkum Rauðu Stjörnunar á sínum tíma. Hann kemur frá félagsliðinu Obilit sem meðal annars hafa keppt við ÍBV í Evrópukeppni, þá spilaði hann eitt ár í Rúmeníu. Markmannsþjálfari Grindvíkinga er Rajko Stamisiz sem var með Milan Stefán Jankovic hjá Keflavík síðasta sumar. Rajko benti á Savic og eftir að hafa skoðað upptökur af markmanninum var hann fenginn til Grindavíkur. Þeir félagar, Rajko og Savic hófu störf fyrir Grindavík síðastliðinn fimmtudag og er mikill fengur í þeim. Boban Savic spilaði gegn Fylki í gær og að sögn Milan Stefáns Jankovic stóð hann sig mjög vel.
Jónas Þórhallson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur er bjartsýnn á að Paul McShane verði með Grindvíkingum í sumar og vonast til að hann komi aftur eftir páska, en hann hélt utan vegna persónulegra mála nýverið. Hann segir að þeir séu að skoða leikmannamarkaðinn og séu að skoða möguleikana einnig erlendis í þeim málum.