Grindvíkingar fá liðsauka
Skoski knattspyrnumaðurinn Ian Williamson skrifaði í hádeginu undir samning við Grindavík og mun spila með liðinu út sumarið.
Williamson, er 24 ára gamall miðjumaður og hefur leikið undanfarin þrjú ár með Raith Rovers í Skotlandi en spilaði áður með Dunfermline í þrjú ár. Hann á að baki 96 leiki í tveimur efstu deildunum og hefur skorað í þeim 10 mörk.
„Við höfum verið að athuga með fleiri möguleika en það er því miður ekkert fleira uppi á borðinu hjá okkur eins og er. Við erum í miklum vandræðum með framherjana okkar því Tomi Ameobi og Pape Faye eru báðir meiddir og óvíst hvenær þeir geta spilað, auk þess sem Jósef Kristinn Jósefsson leikur væntanlega ekkert meira með okkur í ár,“ sagði Guðjón Þórðarson þjálfari Grindvíkinga í samtali við mbl.is.