Grindvíkingar eru komnir í gang
Gindvíkingar unnu þriðja sigurinn í röð í Lengjudeild karla í knattspyrn þegar þeir fengu Eyjamenn í heimsókn á Stakkavíkurvöll í gær.
Grindavík hefur heldur betur hrokkið í gang eftir þjálfaraskipti og hækkar sig jafnt og þétt á stigatöflunni.
Grindavík - ÍBV 3:1
Bæði lið hófu leikinn af krafti eins og þeirra er von og vísa en Eyjamenn voru örlítið beittari í byrjun og þeir áttu fyrsta hættulega færið og það strax á þriðju mínútu. Þá tók ÍBV langt innkast inn í miðjan teig Grindvíkinga en heimamenn komu boltanum frá eftir smá bras.
Það voru liðnar um tuttugu mínútur þegar Grindavík var nærri því að skora. Nuno Malheiro sýndi þá flotta takta þegar hann lék á varnarmann ÍBV og sendi boltann inn í markteig gestanna sem skölluðu frá en fyrirliðinn Einar Karl Ingvarsson reyndi viðstöðulaust skot rétt fyrir utan teig. Hann nánast hitti ekki boltann en úr varð sending á Ion Perelló sem átti skot í þverslánna og yfir.
Eftir tæplega hálftíma leik kom upp einkennilegt atvik þegar Eyjamenn áttu langa sendingu inn fyrir vörn heimamanna þar sem Oliver Heiðarsson tók við honum og skoraði úr þröngri stöðu. Á meðan Eyjamenn fögnuðu marki rölti dómarinnn í rólegheitum til aðstoðardómara og dæmdi svo markið af vegna rangstöðu.
Skömmu síðar fengu Grindvíkingar hornspyrnu sem Perelló tók og sendi boltann inn á teiginn, þar stökk Dennis Nieblas manna hæst og hamraði hann í netið (34'). Frábær spyrna hjá Ion Perelló og enn betri skalli hjá Nieblas og Grindavík komið í forystu. Það lifnaði yfir leik Grindvíkinga við að ná forystunni en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik.
Eyjamenn pressuðu stíft í seinni hálfleiks og voru oft ógnandi. Eftir um fimm mínútur uppskáru þeir hornspyrnu eftir stífa sókn, Grindvíkingum gekk illa að hreinsa frá marki sínu og eftir smá klafs féll einn sóknarmanna ÍBV við vítateiginn og Eyjamenn vildu víti.
Aron Dagur Birnuson, markvörður Grindvíkinga, átti fínan leik í gær. Hann var öruggur í fyrirgjöfum og á 63. mínútu varði hann glæsilega gott skot gestunum sem voru orðnir óþægilega aðgangsharðir.
Það tók að draga úr pressunni frá gestunum og Grindvíkingar refsuðu þeim fyrir það. Christian Bjarmi Alexandersson gerði þá vel þegar hann náði boltanum framarlega á vallarhelmingi Grindvíkinga en boltinn var við það að fara út af. Christian sendi góða stungusendingu inn fyrir vörn ÍBV og þar kom Dagur Ingi Hammer Gunnarsson á fleygiferð og rak tánna í boltann til að vippa yfir markvörð Eyjamanna ((81') til að tvöfalda forystuna.
Eyjamenn svöruðu að bragði þegar þeir léku upp miðjuna skömmu síðar og Vicente Valor átti gott skot utan teigs sem var alveg út við stöng og Aron Dagur kastaði sér á eftir boltanum en náði ekki til hans (83'). Staðan orðin 2:1 og nóg eftir.
Kwame Quee gerði út um leikinn í uppbótartíma eftir að hafa komist inn í sendingu gestanna til baka, skot Quee var ekki gott en lak framhjá markverði ÍBV og í netið (90'+3).
Með sigrinum fóru Grindvíkingar upp fyrir ÍBV á stigatöflunni. Grindavík er komið í þriðja sæti, sjö stigum á eftir Njarðvík og Fjölni en á leik til góða.
Leikinn má sjá í spilaranum hér að neðan.